Innlent

Kristbjörg VE á leið til Vestmannaeyja

Neta- og dragnótabáturinn Kristbjörg VE er nú í togi á leið til Vestmannaeyja. Báturinn varð vélarvana á Meðallandsbugt norðan við Skarðsfjöruvita á tíunda tímanum í nótt og rak í átt að landi.

Landhelgisgæslan lýsti yfir hættuástandi og kallaðar voru út tvær þyrlur, björgunarskip Landsbjargar í Vestmannaeyjum og Höfn í Hornafirði auk þess sem björgunarsveitir á Suðurlandi voru í viðbragðsstöðu í fjörunni.

Það var svo um miðnætti sem línubáturinn Páll Jónsson kom til aðstoðar og var dráttartóg komið fyrir í Kristbjörgu. Hættuástandi var aflýst skömmu eftir klukkan eitt í nótt.

Bátarnir eru nú um tuttugu sjómílum frá Vestmannaeyjum og áætlað að þeir komi þangað rétt fyrir hádegi.

Hægt er að fylgjast með bátunum í rauntíma hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×