Íslenski boltinn

Formaður ÍBV: Ekki rétt að fara með einkamál leikmanna í fjölmiðla

Tryggvi í leik gegn Val.
Tryggvi í leik gegn Val.
Óskar Örn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar ÍBV, segist ekki vera hlynntur því að fjallað sé um einkamál leikmanna í fjölmiðlum þó svo hann hafi verið í viðtali við Eyjafréttir í morgun þar sem hann staðfesti að einn leikmanna félagsins, Tryggvi Guðmundsson, væri farinn í áfengismeðferð. Það kemur í kjölfar þess að Tryggvi var tekinn fyrir ölvunarakstur.

„Mál Tryggva er í ákveðnum farvegi. Hann á góða að sem tóku fast á hans málum og er Tryggvi nú kominn í áfengismeðferð," sagði Óskar við Eyjafréttir í morgun.

Vísir hafði samband við Óskar síðdegis og spurði hann að því af hverju hann hefði ákveðið að fara með málið í fjölmiðla?

"Ég fór með þetta í fjölmiðla því það átti að birtast í fjölmiðlum. Ég ákvað frekar að svara fyrir þetta heldur en að láta bara eitthvað koma í fjölmiðlum," sagði Óskar Örn við Vísi en hann segir að Eyjafréttir hafi verið búið að ákveða að birta frétt um málið.

En finnst Óskari það rétt að fara með einkamál leikmanna í fjölmiðla?

"Nei, mér finnst það ekki rétt. Okkur þótti það samt betra að gera þetta svona heldur en að eitthvað kæmi bara," sagði Óskar.

Ölvunaraksturinn er opinbert mál en áfengismeðferðin flokkast undir einkamál. Fannst Óskari eðlilegt að opinbera bæði?

"Þetta er bara mjög erfitt mál. Þetta er leikmaður sem er alltaf í fjölmiðlum. Hvernig áttum við að gera þetta? Segja að þetta væri leikmaður ÍBV og setja 30 leikmenn undir grun?" sagði Óskar en hann segir að meirihluti stjórnar hafi tekið þá ákvörðun að velja þessa leið.

Sér Óskar eftir þessari ákvörðun núna?

"Ég hefði gjarna viljað að þetta hefði verið öðruvísi. Að maðurinn hefði fengið að fara í friði í sín mál. Ég staðfesti þetta samt og tek fulla ábyrgð á því. Ég vildi frekar stýra þessu svona en að þetta færi einhvern veginn út," sagði Óskar en er hann ekki í mótsögn við sjálfan sig í þessu máli?

"Jú, jú en þetta er bara svo rosalega erfitt mál. Það sem hefur slegið mig mest í þessu er að önnur lið sem voru búin að frétta af þessu voru búin að hafa samband við leikmanninn og reyna að fá hann til sín."

Óskar Örn segir að þrátt fyrir þetta leiðindamál eigi Tryggvi mikla og bjarta framtíð hjá ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×