Íslenski boltinn

Valur hársbreidd frá sæti í Evrópudeildinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mynd/Stefán
Ísland hafnaði í fjórða sæti á háttvísislista Evrópska knattspyrnusambandsins tímabilið 2011-2012 sem birtur var í dag. Þrjár efstu þjóðirnar hlutu að launum sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar á næstu leiktíð. Sætið hefði fallið í skaut Valsmanna sem voru prúðasta lið Pepsi-deilarinnar ásamt ÍBV síðastliðið sumar.

Noregur hafnaði í efsta sæti listans með 8394 stig, Finnland í öðru með 8300 stig og Holland náði þriðja sætinu með 8194 stig. Ísland kom í fjórða sæti aðeins þremur stigum á eftir Hollandi með 8191 stig. Grátleg niðurstaða fyrir karlalið Vals í knattspyrnu.

Einn Valsmaður getur þó fagnað nýbirtum háttvísislista því Stabæk, lið Bjarna Ólafs Eiríkssonar, verður fulltrúi Noregs í Evrópudeildinni. Liðið var reyndar það fjórða prúðasta í norsku deildinni á síðasta ári en hin þrjú félögin höfðu þegar tryggt sæti sitt í Evrópukeppni eftir hefðbundnari leiðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×