Íslenski boltinn

Guðmundur Reynir missir af tveimur fyrstu leikjum KR

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Reynir fagnar Íslandsmeistaratitlinum í fyrra.
Guðmundur Reynir fagnar Íslandsmeistaratitlinum í fyrra. Mynd/Daníel
Guðmundur Reynir Gunnarsson, leikmaður KR, mun að óbreyttu missa af fyrstu tveimur leikjum liðsins í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í sumar. Guðmundur Reynir er í skiptinámi í Harvard í Bandaríkjunum og síðasta próf misserisins er 10. maí. Guðmundur á bókað flug heim daginn eftir.

KR tekur á móti Stjörnunni í fyrsta leik mótsins á KR-vellinum sunnudaginn 6. maí. Fjórum dögum síðar fara Vesturbæingar í heimsókn upp á Skaga til nýliða ÍA.

Guðmundur Reynir sagði í samtali við Vísi í dag að hann væri nýbúinn að bóka flug heim þann 11. maí. Því er ljóst að hann missir af tveimur fyrstu leikjunum.

„Þeir vissu alveg af þessu. Við erum í góðu bandi og skilaboðin sem ég fæ er bara að halda mér í góðu formi sem ég mun gera," sagði Guðmundur Reynir um viðbrögð þjálfarateymis KR við nýbókuðum flugmiða.

Guðmundur Reynir hefur æft með b-liði Harvard-háskólans undanfarnar vikur auk þess að verja miklum tíma í ræktinni. Hann segir liðsfélaga sína í b-liðinu* margar þokkalega knattspyrnumenn en spili töluvert öðruvísi en hann sé vanur. Mest sé lagt upp úr því að spila boltanum upp miðjuna þótt hann fái stundum boltann út á kantinn líka.

„Svo hef ég aðeins verið að spila á miðjunni líka," segir Guðmundur Reynir sem reiknar ekki með að framhaldl verði á því. Það hafi bara verið í stöku leikjum.

Það skal tekið fram að það er ekki vegna skorts á knattspyrnuhæfileikum sem Guðmundur Reynir spilar með b-liðinu. Stífar reglur eru um leikheimildir leikmanna háskólaliðanna og því hefur Guðmundur æft með b-liðinu þar sem allir nemendur skólans eru gjaldgengir.

Brynjar Björn Gunnarsson staðfesti í samtali við Vísi í gær að óvíst væri um tímasetningu á heimkomu kappans. Það færi meðal annars eftir því hvort Reading færi beint upp í ensku úrvalsdeildina eða þyrfti að fara í umspilið.

Líkurnar á því fyrrnefnda jukust til muna í dag er liðið lagði Leeds 2-0 og settist í toppsæti deildarinnar í bili að minnsta kosti.

*Í bandarískum háskólafótbolta er það aðeins varsity-liðið (hér kallað aðallið háskólans) sem keppir formlega á vegum háskólans. Club-liðið (hér kallað b-lið háskólans) leikur í flestum tilfellum í deildum með svipað form og utandeildin hér á landi.


Tengdar fréttir

Brynjar Björn: Gengi liðsins kemur ekki á óvart

Brynjar Björn Gunnarsson, leikmaður Reading, segir gengi liðsins í Championship-deildinni ekki koma sér á óvart. Reading er sem stendur í öðru sæti deildarinnar en liðið tekur á móti Leeds á morgun í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×