Íslenski boltinn

Enn vinnur Fram sigur á KR – sjáið mörkin

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Halldór Hermann Jónsson var á miðjunni hjá Fram að vanda.
Halldór Hermann Jónsson var á miðjunni hjá Fram að vanda.
Framarar unnu 2-1 sigur á KR í viðureign liðanna í Lengjubikarnum í Egilshöll í kvöld. Þetta var þriðji sigur Framara á Íslands- og bikarmeisturunum úr Vesturbænum í röð.

Framarar komust yfir á 29. mínútu með marki frá Samuel Hewson. Kristinn Ingi Halldórsson, hinn eldfljóti kantmaður Framara, sendi þá fyrir markið frá hægri á Steven Lennon sem brást bogalistin í dauðafæri. Boltinn hrökk upp í loftið en Hewson var fyrstur að átta sig og kom boltanum yfir línuna.

KR-ingar, sem höfðu verið sterkari aðilinn fram að markinu, létu markið ekki slá sig út af laginu. Aðeins mínútu síðar sendi Dofri Snorrason, sem lék í stöðu vinstri bakvarðar í kvöld, fyrir markið á kollinn á Kjartani Henry Finnbogasyni sem skallaði glæsilega í fjærhornið.

Sigurmarkið kom um miðjan síðari hálfleikinn. Þá átti Lennon, sem skoraði öll fimm mörk Fram í 5-0 sigri þeirra á KR í úrslitaleik Reykjavíkurmótsins á dögunum, gott skot fyrir utan teig. Fjalar Þorgeirsson varði skotið beint út í teiginn þar sem Kristinn Ingi lagði boltann snyrtilega í netið með hnénu.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og eru Framarar með fullt hús stiga að loknum tveimur leikjum. Þetta var fyrsti leikur KR-inga í keppninni en þeir léku án Hannesar Þórs Halldórssonar og Skúla Jóns Friðgeirssonar sem eru með íslenska landsliðinu í Japan.



Mörkin má sjá á vef Sport TV með því að smella hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×