Innlent

Vetrarvertíðin gengur vel í hvalaskoðuninni

Mynd/Elding
Vetrarvertíðin í hvalaskoðun hefur gengið sérlega vel í ár að sögn Rannveigar Grétarsdóttur hjá Eldingu. Hún segir að mikið kapp hafi verið lagt á það að undanförnu að kynna Ísland sem ferðamannastað allt árið en á síðasta ári hófst samstarf opinberra aðila, einkaaðila og sveitarstjórna undir verkefnisheitinu „Ísland - Allt árið". Átakið hefur það að markmiði að jafna árstíðarsveiflu í komu ferðamanna, skapa ný störf í ferðaþjónustu og auka arðsemi af greininni.

„Fyrir nokkrum árum hefði fáa grunað að hvalaskoðun gæti verið ein af þeim afþreyingum sem bjóða mætti upp á allan ársins hring," segir Rannveig. „Það hefur þó enn og aftur sýnt sig að vetrarhvalaskoðun getur verið jafn áhugaverður kostur og hefðbundin hvalaskoðun yfir sumarmánuðina. Elding er frumkvöðull í vetrarhvalaskoðun á Íslandi og hefur frá árinu 2008 boðið upp á hvalaskoðunarferðir á Reykjarvíkursvæðinu allan ársins hring. Yfirstandandi vetrarvertíð hefur gengið sérlega vel og í ferðum okkar að undanförnu hefur meðal annars sést til háhyrninga og hnúfubaka rétt úti fyrir Hafnarfjarðarhöfn. Þess má einnig geta að fyrr í vetur sáum við einnig steypireyðar og langreyðar úti fyrir Grindavík á ferð þeirra suður á bóginn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×