Innlent

Förgun á mjólkurkúm minni en á síðasta ári

Fyrstu 11 mánuði nýliðins árs var förgun á mjólkurkúm um 6% minni en árið á undan, skv. skýrsluhaldsgögnum Bændasamtaka Íslands og greint er frá á vef Landssambands kúabænda.

Framan af ári var samdrátturinn heldur meiri, eða um 10% miðað við sama mánuð árið áður en á haustmánuðum 2011 var förgun ívið meiri en haustið 2010.

Þegar litið er á förgunarástæður kúnna má sjá að júgurbólgan er lang algengasta ástæða förgunar mjólkurkúa, en um 31% kúnna hafa hana sem tilgreinda förgunarástæðu. Þetta er nokkuð lægra hlutfall en var 2009, þá var júgurbólga ástæða förgunar hjá 34% kúnna. Fyrir þremur áratugum var um 17% kúnna fargað vegna júgurbólgu, undir lok tíunda áratugarins fór það yfir 40% en hefur farið lækkandi síðan þá.

Frjósemi er næst algengasta förgunarástæðan, um 16% kúnna er fargað vegna þess að þær halda ekki. Það er örlítið hærra hlutfall en 2009. Litlar afurðir er tilgreind sem förgunarástæða tæplega 14% af kúnum, það er nokkuð hærra en 2009, þá var það tæp 11%. Júgurgallar eru tilgreindir hjá 8% af kúnum, spenastig og elli hjá tæpum 5% og skapgallar hjá 4% kúnna.

Aðrar ástæður er sjaldgæfari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×