Innlent

Síminn truflar hjólreiðamanninn meira en bílstjórann

BBI skrifar
Mynd frá Swov.
Ætla má að truflun frá farsímum hafi meiri áhrif á hjólreiðamenn en ökumenn samkvæmt fréttabréfi frá Swov, hollensku Umferðarstofunni. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að íslenska Umferðarstofan er hlynt fyrirhuguðum breytingum á umferðarlögum á þá leið að hjólreiðamönnum verði óheimilt að tala í síma á ferð.

„Swov státar af mjög virtum rannsóknaraðilum og við tökum mikið mark á þeim," segir Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu.

Eldri rannsóknir hafa sýnt að að farsímanotkun undir stýri hefur ákaflega truflandi áhrif á ökumenn. Samkvæmt skýrslu sem gerð var fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er ökumaður sem er að tala í símann um 30% lengur að bregðast við en ef hann er undir áhrifum áfengis og með 80 mg af áfengisanda í 100 ml af blóði, sem nemur hér um bil 1,5 prómil áfengismagni samkvæmt töflu á Wikipedia. Refsimörkin hérlendis eru 0,5 prómil . Viðbragðsflýtirinn er einnig um 50% lengri hjá þeim sem tala í síma en hjá venjulegum ökumanni.

Truflunin sem hlýst af farsímaspjalli er því gríðarleg og til að undirstrika það bendir Swov á tölfræði frá Dubai og Abu Dhabi þar sem símkerfi fyrir BlackBerry síma lá niðri í þrjá daga árið 2011. Á þeim tíma fækkaði árekstrum í borgunum um 20% í Dubai og 40% í Abu Dhabi.

Nú sýna upplýsingar Swov að símarnir hafa líklega enn meiri áhrif á hjólreiðamenn en ökumenn, ekki síst vegna þess að hjólreiðamenn stóla meira á heyrn sína og hljóð heldur en bílstjórar.

Vegna þessa telur Umferðarstofa einsýnt að skynsamlegt sé að banna farsímanotkun hjólreiðamanna hér á landi eins og lagt er til í nýjum umferðarlögum.




Tengdar fréttir

Hjólreiðamenn mega ekki tala í farsíma

Samkvæmt frumvarpi til nýrra umferðarlaga verður hjólreiðamönnum óheimilt að hjóla og tala á farsíma á sama tíma. Frumvarpið er nú til meðferðar á Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×