Innlent

Mjólkin er 35 milljarða virði

GS skrifar
Mjólkurkvótinn er nokkuð verðmætur.
Mjólkurkvótinn er nokkuð verðmætur. Mynd/ Stefán.
Mjólkurkvóti bænda, sem þeir geta veðsett með svipuðum hætti og útgerðarmenn fiskikvótann, er nú metinn á tæpa 35 milljarða króna og fer vaxandi.

Á nýafstöðnum tilboðsmarkaði með mjólkurkvóta, reyndist raunvirðið vera 305 krónur fyrir lítrann, og hafði þá hækkað um fimm krónur frá síðasta markaði í vor. Heildarmjólkurkvótinn, sem ríkið greiðir með, er um 114 milljónir lítra á ári, þannig að heildarverðmætið er tæpir 35 milljarðar. Eftirspurn er líka meiri en framboð, þannið að ólíklegt má telja að kvótinn lækki í verði í fyrirsjáanlegri framtíð.

Í mjólkurbransanum er kvótinn kallaður greiðslumark, en það er tiltekið mjólkurmagn sem veitir rétt til beinnar greiðslu úr ríkisjóði. Þennan kvóta, eða greiðslumark, geta bændur veðsett í lánastofnunum með þeim hætti að gefa lánastofnunum veð í jörðinni, eða mannvirkjum, en með þeim fyrirvara að þeir megi ekki ráðstafa mjólkurkvótanum án þeirra samþykkis. Í sjávarútveginum taka bankarnir veð í skipum eða mannvirkjum, sem er líka óbeint veð í kvótum, því útgerðarmenn mega ekki heldur ráðstafa kvótunum án samþykkis bankanna.

Þetta eru því í fljótu bragði svipuð kerfi, nema hvað sá grundvallar munur er á þeim, að bændur fá greitt úr ríkissjóði fyrir að framleiða upp í mjólkurkvótana, en útvegsmenn greiða hinsvegar í sama ríkissjóð, fyrir að fyrir að fá að veiða upp í fiksikvótana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×