Innlent

Íslenskir lögregluþjónar eru auðkenndir

BBI skrifar
Mynd/Vilhelm
Íslenskir lögreglumenn hafa frá upphafi borið númer til að fólk eigi möguleika á að greina einstaka lögreglumenn úr þessu einkennisklædda mannhafi. Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögregluþjóna, þekkir persónulega dæmi um að kerfið hafi borið árangur og fólk hafi komist í samband við einstaka lögreglumenn og borið þeim þakkir eða kvartað yfir þeim.

Fyrst í stað, þegar lögreglumenn klæddust venjulega þeim búning sem er hátíðarbúningur lögreglunnar í dag, voru númerin á koparskildi sem festur var á jakkann ofan við brjóstvasann vinstra megin. Þá voru númerin gangandi tölur í hverju umdæmi. Síðan hefur númerakerfið þróast nokkuð. Númerin eru nú saumuð í spælana á öxlum lögreglumanna. Hvert númer samanstendur af fjórum tölum. Fyrri tvær tölurnar gefa til kynna hvenær viðkomandi maður hóf störf í lögreglu. Síðari tvær eru raðtölur miðaðar við í hvaða röð lögreglumenn voru ráðnir til starfa.

„Tölurnar sjást mjög vel," segir Snorri og segir að þrátt fyrir að efast mætti um að fólk tæki sérstaklega eftir einhverri talnarunu í hita leiksins þegar lögreglumaður kemur því til aðstoðar viti hann dæmi þess að kerfið hafi virkað. „Ég veit þetta fyrir víst. Ég veit af fjölmörgum dæmum um þakkir og kvartanir sem hafa ratað á réttan stað út af númerunum," segir hann.

Í dag bárust fréttir um að lögregluþjónar í Danmörku væru ekki auðkenndir. Á Íslandi er aðra sögu að segja.


Tengdar fréttir

Lögregluþjónar óþekkjanlegir

Ríkissaksóknari í Danmörku hefur látið mál gegn dönskum lögregluþjónum niður falla vegna þess hversu erfitt reyndist að bera kennsl á þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×