Innlent

Forsetahjónin selja Neyðarkallinn

BBI skrifar
Sjálfboðaliðar.
Sjálfboðaliðar. Mynd/Villi
Forsetahjónin ýttu söluátaki Landsbjargar úr vör í Smáralindinni nú síðdegis og seldu fyrstu neyðarkallana. Hundruð sjálfboðaliða félagsins eru nú víðsvegar um landið byrjuð að selja Neyðarkall björgunnarsveitanna.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Dorrit Moussaieff, forsetafrú, stóðu í Smáralindinni í dag og seldu Neyðarkalla, en áætlað er að um tvö þúsund sjálfboðaliðar björgunarsveitanna taki þátt í sölunni sem fram fer í dag, á morgun og á laugardag. Þeir verða staðsettir við allar helstu verslanir landsins og aðra fjölfarna staði, en auk þess verður gengið í hús.

Þetta er sjöunda árið sem Neyðarkall björgunarsveitanna er seldur og hafa viðtökur landsmanna ætíð verið afskaplega góðar. Það yljar björgunarsveitarfólki ætíð um hjartarætur að finna þennan stuðning og þakklátt honum.

Óveður

Björgunarsveitirnar hafa hreint ekki setið auðum höndum í dag, því auk þess að hefja söluátak hafa allmörg útköll verið víðsvegar um landið vegna óveðurs. Síðustu klukkustundir hafa björgunarsveitir frá Vík í Mýrdal og Þórshöfn verið kallaðar út vegna þakplatna sem eru að fjúka af húsþökum og auk þess var björgunarsveitin á Hólmavík kölluð út vegna bíls sem er fastur á Steingrímsfjarðarheiði.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill koma því á framfæri að veðurspáin er mjög slæm víða um land næstu sólarhringa og ekkert ferðaveður er mjög víða. Afar brýnt er að þeir sem telja sig nauðsynlega þurfa að vera á ferð kanni veðurspár og færð á vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×