Íslenski boltinn

Elfar Árni: Vil halda áfram að skora mörk fyrir Blika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Elfar Árni skoraði fyrsta mark Blika á tímabilinu og tryggði um leið fyrsta sigurinn.
Elfar Árni skoraði fyrsta mark Blika á tímabilinu og tryggði um leið fyrsta sigurinn. fréttablaðið/pjetur
Blikinn Elfar Árni Aðalsteinsson er leikmaður 3. umferðar Pepsi-deildar karla að mati Fréttablaðsins. Hann skoraði sigurmark Blika gegn Val í fyrrakvöld og tryggði þeim grænu þar með fyrsta sigur tímabilsins. Mark Elfars Árna var einnig fyrsta mark Blika á tímabilinu.

„Það var fyrst og fremst gott að ná fyrsta sigrinum," sagði Elfar Árni. „Þetta var bara tímaspursmál um fyrsta markið og fyrsta sigurinn því mér finnst við hafa verið að spila ágætlega. Nú erum við komnir á beinu brautina og ætlum að vera þar áfram."

Elfar Árni er 21 árs Húsvíkingur sem kom til Breiðabliks frá Völsungi fyrir tímabilið. Hann hefur fengið stórt hlutverk í sóknarleik liðsins í upphafi tímabilsins.

„Mér hefur verið tekið vel í Kópavoginum og mér líður mjög vel. Þjálfarinn hefur sýnt mér mikið traust og leyft mér að spila mikið, bæði í vor og á undirbúningstímabilinu," sagði hann.

Þrátt fyrir ungan aldur á Elfar Árni fimm ár að baki með meistaraflokki Völsungs. Hann neitar því þó ekki að stökkið úr 2. deildinni í þá efstu sé stórt en segir að það hafi verið tímabært í sínu tilfelli.

„Ég er ánægður með að hafa tekið þetta skref. Breiðablik var góður kostur fyrir mig og finnst mér að mér hafi gengið vel hér."

Elfar Árni er yngri bróðir Baldurs Aðalsteins sem lék áður með ÍA, Val og Víkingi en hann varð Íslandsmeistari með tveimur fyrstnefndu liðunum. Hann spilaði einnig átta A-landsleiki. Elfar fór þó varlega í að bera sig saman við stóra bróður.

„Eigum við ekki að segja að við séum ólíkir leikmenn. Ég mun reyna að ná jafn langt og hann gerði en það verður bara að koma í ljós hvernig það gengur. Ég stefni á að reyna að skora fleiri mörk og hjálpa þannig mínu liði að ná sínum markmiðum í sumar," sagði Elfar Árni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×