Innlent

Skorar á Ögmund að leysa mál Jóels litla

Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurður Kári Kristjánsson.

Sigurður Kári Kristjánsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi íslenska stjórnsýslu harðlega á þingi í dag í máli Jóels Færseth, sem fæddist á Indlandi með aðstoð staðgöngumóður og fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir jól. Drengurinn er enn á Indlandi ásamt foreldrum sínum því hann hefur ekki fengið vegabréf. Sigurður Kári spurði Ögmund Jónasson innanríkisráðherra hvernig stæði á því að vegabréfið hafi enn ekki verið gefið út. Hann sagðist ætlast til þess að ráðuneytin og stjórnsýslan virði vilja Alþingis og gefi vegabréfið út nú þegar, enda hefðu indversk stjórnvöld ekki gert kröfu um að drengurinn yrði áfram í landinu.

Hann sagði ennfremur að sú tregða sem verið hafi í málinu verði ekki útskýrð með því að óljóst sé hver fari með forræði drengsins, enda liggi fæðingarvottorð fyrir.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra svaraði því til að aldrei hafi staðið á ráðuneytunum, hvorki innanríkis- né utanríkisráðuneytinu í þessu máli. Spurningin sé hinsvegar hver fari með forsjá barnsins og hefur ráðuneytið átt í viðræðum við Indversk stjórnvöld um það efni. Starfsmenn stjórnsýslunnar hafi gert allt til þess að greiða götu þessa máls.

Sigurður Kári kom þá í pontu á ný og sagðist hafna því að ekkert hafi staðið á ráðuneytinu. „Ef svo hefði verið þá væri barnið löngu komið heim," sagði Sigurður Kári og skoraði á ráðherrann að leysa málið nú þegar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×