Innlent

Erlendir fjárfestar vilja tryggja sig fyrir pólitískri óvissu

Ásgeir Margeirsson.
Ásgeir Margeirsson.

Erlendir fjárfestar leita nú að tryggingum vegna pólitískrar óvissu á Íslandi, en slíkt hefur ekki þekkst áður hér á landi. Þetta kom m.a. fram á fundi samtaka atvinnulífsins í gær.

Staða á vinnumarkaðnum var rædd á opnum fundi samtaka atvinnulífsins í Reykjanesbæ í gær en atvinnuleysi á suðurnesjum er hlutfallslega það hæsta á landinu eða 13,1%.

Á fundinum fjallaði Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, um álverið í Helguvík og þær hindranir sem standa í vegi fyrir verkefninu.

Ragnar sagði annan ríkisstjórnarflokkinn vinna markvisst gegn verkefninu og hluta hins flokksins einnig. Þá sagði Ragnar ítrekuð afskipti stjórnvalda í Magma málinu valda óvissu og hindra framgang álversins í Helguvík.

Ragnar benti jafnframt á fjárfestingarsamning vegna álversins í Helguvík, sem byggir á lögum frá Alþingi. Í samningnum voru gefin fyrirheit af hálfu ríkisstjórnarinnar um að gera allar nauðsynlega ráðstafanir til þess að tryggja að engin ráðstöfun verði gerð er gæti takmarkað eða á annan hátt haft neikvæð áhrif á framkvæmd verkefnisins og starfsemi Century og/eða félagsins.

Ragnar telur pólitísk afskipti af málinu ekki vera í samræmi við umsamin fyrirheit ríkisstjórnarinnar.

Óvissa flækir málið

Þá fjallaði Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður HS Orku, um framkvæmdaáætlun félagsins. Hann sagði þó að vegna óvissu væri erfitt að tímasetja framkvæmdirnar eða áætla hvernig kostnaður skiptist milli tímabila og ára.

Þá talaði Ásgeir um að í fyrsta skipti væru erlendir fjárfestar - sem eru að skoða fjárfestingu á Íslandi- að hugsa um að kaupa sér tryggingu vegna pólitískrar óvissu á Íslandi. En slík trygging þekkist einungis í ákveðnum ríkjum heimsins þar sem stjórnarfar er mjög óstöðugt. Tryggingar vegna pólitískrar óvissu hafa ekki þekkst áður á Íslandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×