Innlent

Áfengisneysla ekki lengur skráð

Vegna fjárskorts er ekki lengur hægt að halda saman nákvæmum upplýsingum um sölu og neyslu áfengis.
Vegna fjárskorts er ekki lengur hægt að halda saman nákvæmum upplýsingum um sölu og neyslu áfengis.
Hagstofa Íslands hætti nýlega að halda saman upplýsingum um sölu og neyslu áfengis með jafn ítarlegum hætti og hefur verið undanfarin ár. Ástæðan er niðurskurður hjá hinu opinbera.

Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri segir að Hagstofan hafi að undanförnu þurft að draga verulega úr útgjöldum. „Einhvers staðar verður að gefa eftir, eins og hjá öðrum stofnunum, og þá kemur það fyrst til greina sem ekki er lögbundið,“ segir Ólafur. Starfsmönnum Hagstofunnar hefur fækkað um tólf prósent en útgjöld hafa verið skorin niður um rúmlega 20 prósent frá hruni.

Siv Friðleifsdóttir alþingismaður lagði fram fyrirspurn til Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um málið í vikunni. Vill hún fá svör ráðherra við því hvort honum þyki það mikilvægt að hið opinbera fylgist með þróun á sölu og neyslu áfengis. Eins hvort hann telji að slíkar upplýsingar séu mikilvægar í tilliti til forvarna.

Tölur um áfengisneyslu eru til frá árinu 1881. Fram til 1935 styðjast áætlanir við innflutningsskýrslur, en frá 1935 til 1995 er byggt á sölutölum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins. Eftir það er byggt á upplýsingum frá leyfishöfum um innflutning, heildsölu eða framleiðslu á áfengi, svo og sölutölum ÁTVR. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×