Innlent

Björk ósátt við bók um sjálfa sig

Björk eins og hún prýðir umslag nýju plötunnar, Biophilia.
Björk eins og hún prýðir umslag nýju plötunnar, Biophilia.
„Ég myndi segja að bókin fjallaði meira um samfélagið á Íslandi en um Björk sjálfa," segir norski verðlaunahöfundurinn Mette Karlsvik, en bók hennar, Bli Björk, kemur út í Noregi í byrjun nóvember.

Útgáfa bókarinnar hefur vakið athygli, en fyrir helgi tók blaðamaður norska dagblaðsins Dagbladet viðtal við Björk á Íslandi og greindi henni frá útgáfu bókarinnar. Söngkonan virtist koma af fjöllum og sagði:

„Þetta er óþægilegt. Sérstaklega þar sem ég vissi ekkert um bókina. Ég vona að það komi fram að þetta sé skáldskapur og alls ekki sannleikurinn."

Ástæðan fyrir því að bók Karlsvik er um Björk og Ísland er að hún hefur ávallt heillast af landi og þjóð. Hún segist bera virðingu fyrir tónlistarmanninum Björk og finnst samfélagið hér merkilegt.

„Ég er enginn brjálaður eltihrellir og stóð satt að segja í þeirri trú að Björk vissi um bókina," segir Karlsvik í samtali við Fréttablaðið, en greinin í Dagbladet kom rithöfundinum í mikið uppnám.

Norski rithöfundurinn Mette Karlsvik ætlar að senda Björk eintak af Bli Björk og vonast til að hún sjái sér fært að lesa hana.
„Ég vil að það komi skýrt fram að þetta er skáldskapur frá upphafi til enda. Mig langaði að búa til nýja bókmenntastefnu og skrifa skáldsögu um fræga manneskju sem er á lífi í dag. Það sló mig hins vegar þegar Björk sagði að sér fyndist þetta óþægilegt en hún þarf ekkert að óttast. Þetta er skáldskapur og mitt listaverk."

Karlsvik dregur í efa að Björk hafi ekki vitað af útgáfu bókarinnar. Hún kveðst til að mynda hafa verið í miklu sambandi við föður hennar, Guðmund Gunnarsson, en upphaflega átti hann að vera aðalpersóna bókarinnar.

„Það var hins vegar fyrir tilstilli yfirmanns míns hjá forlaginu sem ég ákvað að hafa bókina um Björk,"segir Karlsvik, sem hafði samband við Guðmund, aðallega vegna þess að hún hafði áhuga á stéttarfélögum, en Karlsvik er í stjórn rithöfundasambands Noregs.

„Ég hringdi í hann og spurði hvort ég mætti nota persónu hans í skáldsögu. Hann samþykkti það og ég flaug til Íslands og tók við hann nokkur viðtöl, og afraksturinn af þeim hefur birst í norskum fjölmiðlum en þau voru aðallega um stéttarfélög og pólitík."

Karlsvik segist aftur hafa haft samband við Guðmund þegar hún breytti viðfangsefninu yfir í Björk, auk þess sem hún hafði samband við aðstoðarmann hennar, James Merry. „Við skiptumst á nokkrum tölvupóstum og ég stóð í þeirri trú að þau samskipti hefðu farið fram með vitund Bjarkar. Þess vegna trúi ég tæpast að Björk hafi ekki vitað af útgáfu bókarinnar."

SVAR FRÁ BJÖRK
Bókin umrædda, Bli Björk, kemur út um mánaðamótin október-nóvember í Noregi.
Fréttablaðið hafði samband við Björk sem gaf eftirfarandi svör:

Hver er skoðun þín á bókinni?

„Ég hef ekki lesið hana svo það er erfitt að vera með skoðun. Ég get ekki neitað því að það er erfitt að fara ekki í varnarstöðu þegar fólk skrifar heila bók um mann og manns nánustu, einhver sem maður hefur aldrei hitt."

Karlsvik segir að hún hafi verið í sambandi við meðal annars Guðmund Gunnarsson föður þinn og James aðstoðarmann þinn, og að þeir hafi vitað af ritun bókarinnar. Vissir þú ekkert um bókina áður en blaðamaður frá Dagbladet greindi frá því fyrir helgi?

„Hún tók tvisvar viðtal við hann um verkalýðsmál og pólitík og þess lags, ekki um persónulega hluti eða fjölskylduna. Hún hitti hann í þriðja sinn og bað hann að lesa handritið sem hann vildi ekki gera, þannig að það er ekki satt. Hún hafði samband við James þar sem hún sagðist vera að skrifa bók um Ísland og pólitík, ekki persónulega bók um mig og fjölskyldu mína. Hún sendi mjög pólitískan spurningalista sem ég svaraði ekki þar sem ég var að einbeita mér að tónlist á því tímabili. Þannig að mér finnst hún ekki hafa verið heiðarleg."

alfrun@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×