Innlent

Flugfreyjur funda með samningsaðilum

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Flugfreyjur funda.
Flugfreyjur funda. Mynd Sigurjón
Flugfreyjufélag Íslands fundar nú með samningsaðilum hjá Icelandair um nýjan kjarasamning. Náist ekki samningar á næstu dögum hefja flugfreyjur í verkfallsaðgerðir á mánudag.

Flugfreyjur hjá Icelandair höfnuðu nýjum kjarasamningi í atkvæðagreiðslu í síðustu viku. Í kjölfarið hófust nýjar samningaviðræður milli flugfreyjufélagsins og Icelandair. Boðað hefur verið verkfall flugfreyja tíunda og ellefta október og síðan aftur sautjánda og átjánda október. Dragist samningaviðræður hins vegar enn á langinn hafa flugfreyjur boðað allsherjarverkfall frá og með tuttugasta og fjórða október næstkomandi.

Verkföll flugfreyja hafa víðtæk áhrif á áætlunarflug Icelandair en allt flug mun falla niður á þeim dögum sem verkfallið kæmi til með að standa.

Það myndi hafa í för með sér að yfir 40 höfundar og aðrir listamenn á bókamessu í Frankfurt kæmust ekki leiðar sinnar á mánudag en í samtali við fréttastofu sagði Halldór Guðmundsson verkefnastjóri bókamessunnar að þeir væru tilbúnir til að breyta flugi listamannanna en hafa ekki gert það nú þegar.

Hann bindur vonir við að deilan muni leysast fyrir mánudag. Þá munu erlendir tónlistarmenn sem bókaðir eru á Iceland Airwaves hátíðina um næstu helgi ekki komast til landsins á mánudag og þriðjudag en hátíðin hefst á miðvikudag í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×