Innlent

Eldfjall með áhugaverðustu myndum í London

Eitt virtasta kvikmyndatímarit Breta, Total Film, hefur valið kvikmynd Rúnars Rúnarssonar Eldfjall sem eina af þeim þrjátíu kvikmyndum sem lesendur ættu að sjá á kvikmyndahátíðinni í London sem hefst 12. október. Alls eru yfir 200 myndir í fullri lengd á dagskrá hátíðarinnar að því er fram kemur í tilkynningu.

Eldfjall er fyrsta kvikmynd Rúnars Rúnarssonar leikstjóra í fullri lengd og framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2012. Hún var frumsýnd í Háskólabíói sl. föstudag við dynjandi lófatak. Myndin hefur spurst gríðarvel út, og jákvæðir dómar hafa birst í öllum helstu prent- og ljósvakamiðlum landsins undanfarna daga. Auk þess hlaut myndin tvenn verðlaun á nýafstaðinni kvikmyndahátíð í Reykjavík. Eldfjall hefur undanfarna mánuði verið sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim, t.d. í Cannes, Toronto, Karlovy Vary, Chicago, Transilvaníu, Kazakhstan, og London. Myndin er í forvali til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna.

Myndin fjallar um Hannes, 67 ára gamlan mann sem er að komast á eftirlaunaaldur. Hann er karlmaður af gamla skólanum, einangraður frá fjölskyldunni og heimilinu og þarf nú að takast á við nýtt hlutverk í lífinu. Eldfjall er þroskasaga manns sem þarf að horfast í augu við val fortíðarinnar og erfiðleika nútímans til að eiga möguleika á framtíð.

Hér má sjá umfjöllun tímaritsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×