Erlent

Mótmælendur vilja herinn frá völdum

Mótmælendur hlúa að konu sem fékk yfir sig táragas á Frelsistorginu í Kaíró í gær. Í það minnsta fimm þúsund mótmælendur héldu í gær að torginu þrátt fyrir tilraunir óeirðalögreglu til að koma þeim í burtu.Fréttablaðið/AP
Mótmælendur hlúa að konu sem fékk yfir sig táragas á Frelsistorginu í Kaíró í gær. Í það minnsta fimm þúsund mótmælendur héldu í gær að torginu þrátt fyrir tilraunir óeirðalögreglu til að koma þeim í burtu.Fréttablaðið/AP
Óeirðalögreglu og mótmælendum laust saman á Frelsistorginu í Kaíró í Egyptalandi í gær, annan daginn í röð. Mótmælendur hentu grjóti að lögreglu, sem svaraði með táragassprengjum og gúmmíkúlum.

Þúsundir mótmælenda komu sér fyrir á torginu um helgina til að mótmæla því hversu hægt gengur að koma á úrbótum í lýðræðisátt í landinu. Þá segjast talsmenn þeirra ósáttir við það sem þeir kölluðu tilraunir herstjórnarinnar í landinu til að auka völd sín á kostnað lýðræðislegra kjörinna stjórnvalda.

Frá því að Hosní Múbarak hrökklaðist úr embætti forseta landsins í febrúar síðastliðnum hefur fyrrum varnarmálaráðherra hans, Hussein Tantawi, haldið um valdataumana. Í dag er vika í að fyrstu frjálsu þingkosningarnar í landinu eftir brotthvarf Múbaraks hefjist, en þær eiga að standa yfir í þrjá mánuði.

Í það minnsta fimm eru sagðir fallnir í mótmælunum um helgina, og hundruð hafa særst. „Við höfum bara eina kröfu. Hún er sú að sitjandi forseti stígi til hliðar og við taki stjórn ótengd hernum,“ sagði Ahmed Hani, einn mótmælenda.

Óstaðfestar fregnir herma að í það minnsta 55 hafi verið handteknir af lögreglu um helgina.

Læknar hafa komið upp tveimur sjúkraskýlum á torginu og höfðu um miðjan dag í gær tekið á móti um 700 mótmælendum. Flestir áttu erfitt með andardrátt vegna táragassprengjanna, en aðrir höfðu fengið í sig gúmmíkúlur.

„Lögreglan er að miða á höfuðið á fólkinu, ekki lærin eins og þeir gera venjulega,“ segir Alaa Mohammed, einn læknanna.

Eftir að Múbarak hrökklaðist frá tók herinn við stjórn landsins.

Stjórnendur hans hafa heitið því að víkja til hliðar þegar lýðræðislegar forsetakosningar hafa farið fram í landinu, en enn hefur ekki verið ákveðið hvenær þær eigi að fara fram.

Yfirstjórn hersins hefur rætt um að halda forsetakosningar seint á næsta ári, eða í byrjun árs 2013. Það þykir þeim sem mótmæltu á Frelsistorginu í gær allt of seint. Mótmælendur vilja að herinn sleppi valdataumunum í mars á næsta ári, eftir að úrslit úr þingkosningunum hafa verið gerð opinber. brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×