Erlent

Sýrland rekið úr Arababandalaginu

Hamad bin Jassim Utanríkisráðherra Katar á fundi Arababandalagsins í gær.
Hamad bin Jassim Utanríkisráðherra Katar á fundi Arababandalagsins í gær. nordicphotos/AFP
„Það sem hefur gerst í Sýrlandi er mjög sorglegt fyrir okkur öll. Við getum ekki sætt okkur við að fólk sé drepið eins og nú er verið að gera. Við erum að grípa til ráðstafana til að stöðva þetta blóðbað,“ sagði Hamad bin Jassim, utanríkisráðherra Katar, á fundi Arababandalagsins í Marokkó í gær. „Sýrlenska stjórnin verður að fallast á áætlun Arababandalagsins.“

Katar hefur tekið forystu innan Arababandalagsins um aðgerðir gegn Bashar al-Assad Sýrlandsforseta, sem heldur áfram að senda her og lögreglu á mótmælendur með hrikalegum afleiðingum.

Á fundi sínum í gær staðfesti Arababandalagið formlega brottvísun Sýrlands úr samtökunum. Assad Sýrlandsforseti hefur brugðist ókvæða við brottvísuninni, enda óttast Sýrlandsstjórn að Bandaríkin og fleiri ríki muni notfæra sér þessa eindregnu afstöðu Arababandalagsins til þess að knýja fram frekari refsiaðgerðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Rússar og Kínverjar, sem hafa neitunarvald í öryggisráðinu, hafa til þessa staðið harðir gegn frekari refsiaðgerðum en gætu átt erfiðara með það í ljósi afstöðu Arababandalagsins.

Sýrland hefur einangrast hratt á alþjóðavettvangi undanfarið vegna þess hve hart hefur verið tekið á mótmælendum. Meira að segja Tyrkland, sem hefur til þessa verið í góðum tengslum við Sýrland, hefur boðað eigin refsiaðgerðir. Tyrkir hafa hætt við þátttöku í olíuleit í Sýrlandi og hóta auk þess að skrúfa fyrir rafmagn sem Sýrlendingar hafa fengið frá Tyrklandi.

Síðast í gær kölluðu frönsk stjórnvöld sendiherra sinn heim frá Sýrlandi, ekki síst vegna tíðra árása stuðningsmanna sýrlensku stjórnarinnar á sendiráð og sendifulltrúa Frakklands, Bandaríkjanna og fleiri landa.

Vel á fjórða þúsund manns hafa nú látið lífið í átökum í Sýrlandi síðan mótælin gegn Assad forseta hófust fyrir átta mánuðum.

Nú síðast hafa liðhlaupar í sýrlenska hernum blandað sér í átökin. Hópur þeirra réðst í gær á herstöðvar og eftirlitsstöðvar í nágrenni höfuðborgarinnar Damaskus og í héraðinu Homa, þar sem uppreisnin hefur verið einna öflugust. Að minnsta kosti átta hermenn létu lífið í þeim árásum.gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×