Lífið

Þýski afinn hærri og eldri en Siggi Sigurjóns

Karl Dall ásamt Sigurði Sigurjónssyni, sem hefur leikið Afann við góðar undirtektir hér á landi.Mynd/halldór kolbeinsson
Karl Dall ásamt Sigurði Sigurjónssyni, sem hefur leikið Afann við góðar undirtektir hér á landi.Mynd/halldór kolbeinsson
Þýski grínistinn Karl Dall mun leika Afann í Þýskalandi á næsta ári. Samningur þess efnis var undirritaður um síðustu helgi. Dall sá Sigurjón Sigurjónsson leika Afann í Borgarleikhúsinu og hittust „afarnir“ tveir eftir sýninguna. „Þetta er bara þýskur afi. Hann er ögn hærri í loftinu en ég og eilítið eldri,“ segir Sigurður. „Ég lék þetta fyrir hann eins og óður væri og ég vona að hann hafi lært eitthvað af því.“ Spurður hvort Dall hafi roð við honum í hlutverkinu segir Sigurður léttur: „Það held ég reyndar ekki. En fyrir þýskan markað, það má alveg reyna það.“

Dall hefur komið fram í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta í Þýskalandi og er bæði þekktur fyrir gamanleik sinn og kómískt útlitið, en hann fæddist með lokbráreinkennið. „Hann er mjög fyndinn,“ segir leikstjórinn Bjarni Haukur Þórsson um hinn sjötuga Dall. Bergsveinn Jónsson, framleiðandi hjá Thorsson Production, átti einnig þátt í að ráða hann í hlutverkið.

Annar einleikur Bjarna Hauks, Pabbinn, hefur verið sýndur í Þýskalandi í tvö ár og hafa yfir eitt hundrað þúsund manns séð hann. Þýsk kvikmynd byggð á Pabbanum fer í tökur á næsta ári eftir handriti Bjarna Hauks og Ólafs Egilssonar.

Síðustu tvær sýningarnar á Afanum í Borgarleikhúsinu verða um næstu helgi og eftir áramót fer einleikurinn út á land. Um tólf þúsund manns hafa séð Afann hér á landi frá því í janúar. Enn sem komið er hafa töluvert fleiri séð Pabbann hérlendis, eða um þrjátíu þúsund.- fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.