Erlent

Vill endurheimta völd frá Brussel

Borgarstjórinn David Wootton og forsætisráðherrann David Cameron
Að venju er mikil viðhöfn höfð í hinu árlega kvöldverðarboði borgarstjóra fjármálahverfisins í London.nordicphotos/AFP
Borgarstjórinn David Wootton og forsætisráðherrann David Cameron Að venju er mikil viðhöfn höfð í hinu árlega kvöldverðarboði borgarstjóra fjármálahverfisins í London.nordicphotos/AFP
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að Bretar eigi ekki að líta þær breytingar sem við blasir að gera þurfi á evrusvæðinu neikvæðum augum heldur sem tækifæri fyrir Bretland.

Hann fullyrðir að í tengslum við breytingar á grundvallarreglum Evrópusambandsins fái Bretar kærkomið tækifæri til að fá aftur heim eitthvað af þeim völdum sem þeir hafi afsalað sér til Evrópusambandsins.

Hann sagðist þó engan veginn telja að Bretland ætti að segja skilið við Evrópusambandið, og nefndi Noreg sérstaklega sem víti til varnaðar.

„Utan Evrópusambandsins myndum við lenda í sömu stöðu og Noregur, sem er undirseldur hverri einustu reglu innri markaðarins frá Brussel en hefur enga möguleika til að móta þessar reglur. Og trúið mér: Ef við værum ekki innanborðs að hjálpa til við að semja reglurnar, þá væru þær settar án okkar,“ sagði Cameron, „og við yrðum ekki ánægð með útkomuna.“

Þess í stað vill hann tengja breytingarnar við víðtækari endurskoðun á tilgangi og hlutverki Evrópusambandsins.

„Evrópusambandið hefur of lengi reynt að laga raunveruleikann að stofnunum sínum. En til lengri tíma næst árangur aðeins ef stofnanirnar laga sig að raunveruleikanum,“ sagði Cameron.

Hann sagði rödd efasemdarmanna um Evrópusambandið, eins og sína, vera mikilvæga í þessu sambandi.

„Við höfum rétt til þess að spyrja hvað Evrópusambandið á að gera og hvað það á ekki að gera, og breyta því í samræmi við það. Eins og ég sagði fela breytingar í sér tækifæri.“

Evrópusambandið þurfi að nota þetta tækifæri til að fara að einbeita sér að því sem máli skipti. Cameron lét þessi orð falla í ræðu sem hann flutti á mánudag á viðhafnarkvöldverði sem borgarstjóri fjármálahverfis Lundúnaborgar, City of London, heldur á hverju ári um miðjan nóvember. Löng hefð er fyrir því að forsætisráðherra Bretlands flytji stefnumarkandi ræðu við þetta tækifæri.

Í ræðu sinni fór Cameron vítt og breitt yfir utanríkismál Bretlands, varði meðal annars íhlutun Breta í Líbíu og Afganistan og boðaði aukin framlög Breta til þróunaraðstoðar. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×