Lífið

Ætlar að verða betri en pabbi hans á hjólabrettinu

Hinn þrettán ára gamli Sigfinnur Böðvarsson bar sigur úr býtum á DC Global Trips-hjólabrettamótinu sem haldið var um helgina. Hann er á leið til Spánar þar sem hann fær að prófa einn flottasta hjólabrettagarð heims. Fréttablaðið/Valli
Hinn þrettán ára gamli Sigfinnur Böðvarsson bar sigur úr býtum á DC Global Trips-hjólabrettamótinu sem haldið var um helgina. Hann er á leið til Spánar þar sem hann fær að prófa einn flottasta hjólabrettagarð heims. Fréttablaðið/Valli
„Ég held ég hafi verið svona sjö ára þegar ég byrjaði að skeita. Pabbi kenndi mér fyrst en svo fór ég að æfa mig bara sjálfur,“ segir Sigfinnur Böðvarsson, þrettán ára Kópavogsbúi, sem bar sigur úr býtum í flokki 14 ára og yngri í BMX- og hjólabrettakeppni DC Global Trips sem haldin var í Laugardalshöll um helgina.

Sigfinnur fékk verðlaun fyrir besta „trick-ið“ í yngri flokki en segist ekki hafa æft það lengi. „Ég var búinn að prófa að gera þetta einu sinni en svo ákvað ég bara að prófa þetta í úrslitunum – það tókst.“ Maður nær þó ekki að skara fram úr án mikilla æfinga og Sigfinnur segist eyða miklum tíma á brettinu og renna sér hvar sem hann getur með vinum sínum.

Í verðlaun fá sigurvegarar mótsins ferð til Barcelona þar sem nýlega var byggður einn stærsti innanhúss hjólabrettagarður Evrópu. Sigfinnur hlakkar mikið til að prófa garðinn, enda lítið um aðstöðu fyrir hjólabrettafólk á Íslandi. Pallarnir sem notaðir voru á mótinu um helgina voru til að mynda sérsmíðaðir.

Sigfinnur ólst upp við hjólabrettaiðkunina en Böðvar Þórisson faðir hans var meðal þeirra fyrstu sem stunduðu íþróttina hér á landi fyrir nærri fjörutíu árum. „Þá voru sáralitlar eða engar aðstæður til hjólabrettaiðkunar, maður var helst að elta einhvern stað þar sem var nýbúið að malbika. Þetta hefur þróast ævintýralega mikið en þetta var auðvitað bara að byrja á þessum árum.“ Böðvari finnst þó vanta upp á jákvæða umræðu um hjólabrettin á Íslandi. „Það er ekki horft á þetta sem íþrótt, þetta er bara eitthvað svona dund hjá guttum en á bak við svona efnilega stráka eru nær undantekningarlaust þrotlausar æfingar bæði í þessu og fimleikum og alls konar hlutum sem styðja við það að geta orðið góður í þessu.“

Sigfinnur játar því að stefna lengra en faðir hans í íþróttinni, en Böðvar skipti hjólabrettinu út fyrir snjóbretti fyrir alllöngu. Sigfinnur segist ekki útiloka að stefnan verði tekin á atvinnumennsku, „en ég get ekki valið á milli hjólabretta og snjóbretta, helst vil ég bara æfa bæði“.

bergthora@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.