Innlent

Hópur Guðmundar fer ört stækkandi

Guðmundur er í viðræðum við ýmsa óháða stjórnmálaflokka á landinu öllu.fréttablaðið/valli
Guðmundur er í viðræðum við ýmsa óháða stjórnmálaflokka á landinu öllu.fréttablaðið/valli
„Þetta gengur alveg glimrandi vel. Þetta verður úti um allt land, það er þannig áhugi,“ segir Guðmundur Steingrímsson þingmaður um viðræður vegna væntanlegs framboðs nýs flokks í þingkosningunum árið 2013. „Hópurinn er alltaf að stækka.“

Guðmundur hefur, eins og kunnugt er, verið í viðræðum við fólk úr Besta flokknum og L-listanum á Akureyri, ásamt fólki úr öðrum óháðum framboðum á Vestur-, Austur- og Suðurlandi. „Þetta er enn á þreifingastigi og verður að fá að koma í ljós,“ segir hann. „Það er meðal annars fólk úr L-listanum sem hefur talað við okkur og fólk í alls konar óháðum framboðum annars staðar líka. Það er kannski engin tilviljun, við erum að tala um svipaða hluti og óháðir flokkar víðs vegar um landið.“

Geir Kristinn Aðalsteinsson, oddviti L-listans, tekur því fagnandi að verið sé að þreifa fyrir sér með stofnun nýs stjórnmálaflokks. Hann segir L-listann ekki ætla í framboð sem heild en vissulega sé áhugi meðal fólks í flokknum að halda áfram viðræðum.

„L-listinn ætlar ekki að tengjast þessum nýja flokki. En ef einhver innan okkar raða hefur áhuga á að starfa með honum myndi listinn ekki setja sig á móti því,“ segir Geir. Hann segir engan af bæjarfulltrúum listans ætla í framboð.

„Við fögnum því þó að menn séu að gera þetta. Þetta er þarft framtak og það þarf nýja sýn á stjórnmálin,“ segir hann og bætir við að þar sem L-listinn sé með hreinan meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar vanti klukkutíma í sólarhringinn frekar en hitt og því sjái hann ekki fram á að menn hafi tíma í frekari stjórnmálastörf.- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×