Innlent

Stefnt að stemningu hjá almenningi

Mikið fé hefur verið lagt í að rétta við ímynd Íslands og Íslendinga eftir hrun fjármálakerfisins og truflandi öskufall frá eldstöðvum.
Fréttablaðið/Vilhelm
Mikið fé hefur verið lagt í að rétta við ímynd Íslands og Íslendinga eftir hrun fjármálakerfisins og truflandi öskufall frá eldstöðvum. Fréttablaðið/Vilhelm
Reykjavíkurborg ætlar að leggja samtals 120 milljónir króna á þremur árum í átakið Ísland – allt árið, sem á að styrkja ímynd landsins sem áfangastaðar ferðamanna árið um kring.

Ísland – allt árið er samstarfsverkefni ríkisins, Reykjavíkurborgar og hagsmunaaðila. Ríkið hefur skuldbundið sig til að leggja fram 300 milljónir króna á ári næstu þrjú árin með því skilyrði að jafn há upphæð komi frá samstarfsaðilum. Þannig er gert ráð fyrir því að 600 milljónir króna fari árlega í kynningarverkefnið og samtals 1.800 milljónir áður en yfir lýkur að þremur árum liðnum.

Átakinu er ætlað að jafna árstíðarsveiflu í komu erlendra ferðamanna. Byggt verður á starfi Inspired by Iceland. Auk borgarinnar og iðnaðarráðuneytisins eru þeir aðilar sem nú þegar taka þátt í verkefninu Icelandair, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónustu, ISAVIA og Íslandsstofa.

„Verkefnið á að skapa stemningu meðal íslensks almennings sem stuðlar að þeirri ímynd að Ísland sé gott heim að sækja árið um kring. Höfðað verður til þess að Íslandsferð samræmist eftirsóknarverðum lífsstíl og sé minnisverð upplifun,“ segir í greinargerð sem lögð var fyrir borgarráð.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×