Innlent

Frystikistan þeyttist til í harðri ákeyrslu

Ráða má af ummerkjum að bíllinn hefur verið á talsverðum hraða, þar sem hann hefur farið í gegnum útvegginn og kastaði frystikistu veggja á milli.
Ráða má af ummerkjum að bíllinn hefur verið á talsverðum hraða, þar sem hann hefur farið í gegnum útvegginn og kastaði frystikistu veggja á milli. Mynd/Stefán
„Það var heppilegt að ég var ekki þarna að sækja mér neitt í frystikistuna. Ef ég hefði verið staddur þarna inni hefði ég væntanlega misst undan mér lappirnar því að frystikistan kastaðist út í vegg."

Þetta segir Þorvaldur Þorvaldsson, byggingarverktaki og húseigandi. Um hádegi á laugardag ók ungur maður, undir áhrifum áfengis og fíkniefna, eftir Seljavegi og rakleitt á fjölbýlishús við Holtsgötu í Vesturbæ Reykjavíkur. Krafturinn var slíkur að útveggur á geymslu í eigu Þorvalds brotnaði í gegn og frystikista sem var uppi við vegginn þeyttist þvert yfir herbergið. Aðliggjandi hús léku á reiðiskjálfi að sögn nágranna.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu meiddist enginn í slysinu. Tveir menn voru í bifreiðinni og voru þeir færðir á lögreglustöð frá slysstað.

Þorvaldur segist einnig hafa lítinn efnislager í geymslunni, sem er um fjórir fermetrar að stærð, og eiga þess vegna alloft leið þar um. Því sé heppni að hann hafi ekki verið staddur þar í þetta skiptið.

Skemmdirnar á húsinu eru miklar og vonast Þorvaldur til þess að geta hafið lagfæringar sem allra fyrst.

„Ég býst við því að þetta verði dýr viðgerð og ég er búinn að vera að ýta á eftir tryggingunum að koma nú og meta tjónið til að ég geti farið að gera eitthvað í þessu. Það gengur ekki til lengdar að hafa þetta svona opið."

Vel virðist þó hafa sloppið með skemmdir á innanstokksmunum, þar sem frystikistan gengur til dæmis enn, að sögn Þorvalds.

„Ég hef ekki tekið hana úr sambandi og leyft henni að standa þar sem hún er, en hún gengur í bili. Sem betur fer helltust ekki niður hirslurnar með skrúfum og nöglum af öllum stærðum og gerðum. Það hefði orðið frekar ókræsilegt að lesa það allt í sundur úr einni bendu," segir Þorvaldur að lokum en segir mestu skipta að enginn hafi meiðst í óhappinu.

thorgils@frettabladid.is



Athugasemd:

Fyrir misskilning var áður sagt að báðir í bílnum hafi verið undir áhrifum fíkniefna, en því skal haldið til haga að einungis ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir slíkum áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×