Innlent

Byggja um of á væntingum ríkisstjórnar

KRISTJÁN ÞÓR JÚLÍUSSON
KRISTJÁN ÞÓR JÚLÍUSSON
Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, óttast að fjárlögin byggi á meiri væntingum en innstæða sé fyrir. Áherslur og útlegging ríkisstjórnarinnar á fjárlögunum séu í hróplegu ósamræmi við skilning launþega og fyrirtækja á stöðunni á vinnumarkaði í dag. „Ég hef áhyggjur af því hvernig þær forsendur eru lagðar fram sem fjárlögin byggja á. Annars vegar er um að ræða þjóðhagsspá Hagstofunnar frá því í júlí sem maður setur ákveðinn fyrirvara við. Hins vegar á vöxtur í íslensku hagkerfi að byggja á einkaneyslu og fjárfestingu sem á að aukast um 15 prósent.“

Kristján Þór segir rangt að ekki sé verið að auka skatta á almenning. „Við sjáum ýmsa þætti sem lúta að auknum álögum á fólk og einnig fyrirtæki. Það er breyting á skattþrepum og hækkun þeirra marka sem þar er um að ræða. Við sjáum líka krónutöluskattahækkun, þar á meðal á bensín. Það er ýmislegt í þessu sem á eftir að koma betur í ljós, en í mínum huga er það alveg ljóst að almenningur á áfram að bera allnokkrar byrðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×