Innlent

Nóg komið af öskrum

Allt skrifað með hástöfum í umræðunni með tíu upphrópunarmerkjum á eftir. Gaukur Úlfarsson kvikmyndagerðarmaður útilokar ekki framboð í næstu Alþingiskosningum þó hann telji starf þingmanna afar vanþakklátt.
Allt skrifað með hástöfum í umræðunni með tíu upphrópunarmerkjum á eftir. Gaukur Úlfarsson kvikmyndagerðarmaður útilokar ekki framboð í næstu Alþingiskosningum þó hann telji starf þingmanna afar vanþakklátt. Mynd/Valli
Umræðan í íslenskri pólitík er eins og banvænt krabbamein í samfélaginu að mati Gauks Úlfarssonar, kvikmyndaleikstjóra og eins forsprakka Besta flokksins. Gaukur segir að pólitíkin sé of vond til að gott fólk hætti sér út í hana og Íslendingar séu enn jafn frekir og þeir voru fyrir hrun.

Gauk Úlfarsson þekkja flestir sem leikstjóra kvikmyndarinnar Gnarr og skapara Silvíu Nóttar. Færri vita að Gaukur vinnur enn náið með Besta flokknum, er í viðræðum við Guðmund Steingrímsson vegna myndunar nýs stjórnmálaafls fyrir næstu þingkosningar og hefur stórar hugmyndir um framtíð íslensku þjóðarinnar.

Ekki hrifinn í fyrstu„Jón Gnarr átti hugmyndina að Besta flokknum. Hugmyndin um framboð er hans. Við vorum búnir að hittast reglulega til að ræða hugmynd að sjónvarpsþætti, en hann talaði stanslaust um þessa stofnun flokksins – hugmynd sem mér fannst ekki góð til að byrja með. Ég hélt að það mundi bara auka á glundroðann og ekki skila neinu öðru en einhverju gríni sem ekki var þörf á. Svo var það einhverja andvökunóttina sem kviknaði á perunni hjá mér og ég uppgötvaði að þetta gæti orðið algjör snilld."

Gaukur segir kosningabaráttu Jóns Gnarr bæði hafa verið fyrirfram skrifað handrit og spuni á staðnum.

„Jón fór inn í baráttuna á þremur fyrirfram ákveðnum týpum; meinlausa trúðnum, alvarlega pólitíkusinum og einlæga manninum. Ég tók reynslu mína frá Silvíu Nótt og ætlaði mér að leikstýra honum töluvert mikið til að byrja með. Við settumst niður fyrir viðtöl og ákváðum hvernig hann ætti að vera og hann samþykkti það alltaf. Svo fór hann inn og gerði bara sitt, sem var oft og tíðum allt annað en við höfðum ákveðið, þannig að ég hætti bara að reyna. Hann gerði þetta á sínum forsendum."

En var þetta þá allt saman sjónarspil sem var ákveðið fyrir fram? Er öll kosningabaráttan og pólitíkin til í handriti?

„Nei, þetta var ekki handrit, þessu var leikstýrt að handan. Allt gerðist svo hratt og vatt upp á sig að það gafst enginn tími til að velta öllu fyrir sér. En ég man svo skýrt, daginn eftir kosningar, þegar það rann upp fyrir mér að flokkurinn sem réði borginni hét „Besti flokkurinn". Enginn setti spurningarmerki við það og það finnst mér alveg stórkostlegt."

Jón mun sitja áframAðspurður hvert eiginlegt hlutverk Gauks sé innan Besta flokksins svarar hann að það sé ekki mjög fast mótað.

„Ég leikstýrði Gnarr og hef mína rödd meðal annarra radda þarna inni. Ég er hvorki á launaskrá hjá flokknum né hjá borginni, en ég hef skoðanir og tala mikið við Heiðu og Jón um þær meiningar og þau tala við mig á móti. Það er mitt hlutverk, sem er ekki mjög fast mótað. Við erum vinir og deilum bæði skoðunum og áhyggjum."

Fólkið innan Besta flokksins kemur allt frá öðrum sviðum samfélagsins, úr störfum sem það hefur hugsanlega mun meira gaman af en að taka þátt í pólitík, að mati Gauks.

„Öll erum við fólk sem höfum þurft að skapa okkar vinnu dag frá degi með því að laga okkur að nýjum aðstæðum. Jón mun sitja sem borgarstjóri út tímabilið, það er það sem hann vill gera. Svo getur líka verið að Jón standi upp og segi: „Mér finnst þetta æðislegt, mig langar að vera í tuttugu ár í viðbót."

Nýir vindar á þingiGaukur hefur verið í viðræðum við Guðmund Steingrímsson um komandi þingkosningar og mótun nýs stjórnmálaafls. Hann finnur samhljóm í skoðunum Besta flokksins og Guðmundar og er bjartsýnn á framhaldið.

„Ég held að ástæðan fyrir því að Guðmundur Steingrímsson leitaði til okkar sé fyrir það fyrsta sú að hann situr núna á þingi og er að upplifa steypuna sem við sjáum. Það þarf ekki að fara mikið út í það hversu ömurlegt það er að horfa upp á þetta leikhús fáránleikans. En Guðmundur sér eininguna sem ríkir meðal okkar og hvernig við berum okkur að í stærri málum – af ábyrgð. Auðvitað erum við tilbúin að ræða við þannig mann. Við höfum átt einn langan fund saman þar sem við skiptumst á skoðunum og ég var að átta mig á því hvaðan hann kæmi og hvað hann væri að hugsa. Fyrir mér sagði hann alla réttu hlutina. Mér fannst hann fara í viðræðurnar á algjörlega réttum forsendum. Guðmundur kemur líka úr flokki sem er að færa sig yfir á mjög hættulegar slóðir að mínu mati og við erum sammála því. En það er hellingur af mjög góðu fólki úr öllum flokkum sem vill vel. Ég mundi til dæmis vilja sjá það fólk úr bæði Sjálfstæðisflokknum og VG ganga til liðs við okkur, þar er mjög mikið af mjög kláru fólki."

Gauk langar ekki sjálfan á þing, en segist þó ekki útiloka neitt. Hann segir starfið vanþakklátt og langar miklu frekar að gera eitthvað annað.

„Ég hef enga löngun til þess að vinna það vanþakkláta starf sem er á Alþingi, þó ég hafi enn ekki fengið ítarlega starfslýsingu á verksviði alþingismanna. En ég held að ég mundi ekki gera mikið gagn þar eins og er, þó það geti vel breyst. Maður þarf að gera það upp við sig hvort maður geri meira gagn þar en annars staðar."

Gott fólk vill ekki í pólitík„Það leikur enginn vafi á því að Ísland er fullt af frábæru fólki. En það eru svo margir sem vilja ekki vera í sviðsljósinu þegar kemur að pólitík vegna þess að þeir vilja ekki vera úthrópaðir landráðamenn, svikarar eða aumingjar. Því held ég að það sé ótrúlega margt gott og klárt fólk sem getur ekki hugsað sér að fara út í stjórnmál vegna umræðunnar. Út af „noisinu" í þjóðfélaginu. Allt er skrifað með hástöfum og það koma tuttugu upphrópunarmerki á eftir. Fyrir vikið verður allt bæði svo erfitt og þungt. Þess vegna held ég að margir, sem gætu orðið frábærir stjórnmálamenn, geti ekki þolað það. Það er eins og þjóðin sé komin með banvænt krabbamein. Ég hef rætt við margt mjög gott fólk um mögulega aðkomu þeirra að stjórnmálum og ég fæ nær undantekningarlaust sama svarið: „Ekki núna." En það er akkúrat núna sem þörfin er mest. Tíminn er núna."

Íslendingar eru enn jafn frekirSilvía Nótt var sögð mjög skýr birtingarmynd Íslendinga í góðærinu. Gaukur segir Besta flokkinn engan veginn sambærilegt fyrirbæri, enda ekki leikrit eins og Silvía.

„Aftur á móti held ég að Silvía hafi verið birtingarmynd Íslendinga í góðærinu sem frekjuhundur með þá tilhneigingu að vera laus við allt sem heitir að vera „spiritual". Hún hafði engar ímyndir um neinn annan en sjálfa sig og hvað henni var fyrir bestu. Hún var birtingarmynd þess sem hefur látið einhvern segja sér frá formálanum af The Secret og er heima hjá sér að fróa sér yfir hugmyndinni um gulljeppann. En Silvía var barn síns tíma og hún á ekki við í dag, hún dó á réttum tíma."

Þrátt fyrir breytta tíma frá hápunkti Silvíu, segir Gaukur það sama vera uppi á teningnum í dag. „Þetta er bara hin hliðin á sama peningnum. Áður áttum við allt en fengum aldrei nóg. Í dag eigum við minna, en höldum að við eigum ekki neitt. Við erum enn að drepast úr frekju og sjálfsvorkunn og erum jafn lítið „spiritual". Þegar ég ferðast erlendis og segi fólki frá Íslandi, hafa margir á tilfinningunni að meirihluti okkar hafi misst allt í hruninu, við séum bara úti á götu að leita okkur að mat í ruslafötum. Við erum ein af ríkustu þjóðum heims, en erum föst í sjálfsvorkunn og kreppuklámi. Þessu: „Hvað verður um fjölskyldurnar í landinu?" En það hefur enginn dáið úr hungri eða kulda í kreppunni. Það hefur enginn dáið úr fátækt. Fátækt er eitthvað sem við þekkjum ekki, en við látum eins og við þekkjum hana. Auðvitað erum við misrík, en við erum rík samt sem áður. Við erum spillt."

Sultugerðin reddar öllu„Við erum að ganga í gegnum mikið þroskaskeið. Mér finnst eins og kvöldið sem Geir Haarde lýsti því yfir að Ísland væri gjaldþrota sé eins og þjóðin hafi farið í einhvern ham og sagt: „Ókei, þetta er svolítið slæmt. En nú tökum við bara slátur, prjónum lopapeysur og stofnum þjóðlagahljómsveit. Það verður okkar framlag til kreppunnar. Við verðum heima og gerum sultu."

En síðan koma afleiðingarnar. Það þarf að skera niður, það þarf að segja upp fólki til að dæmið gangi upp. Til að rétta við skekkjuna sem var fyrir. Og í huga fólks er það óréttlæti vegna þess að það virðist ekki muna að við fórum á hausinn og það þarf að laga. Við verðum að vera saman í skipinu til að sigla því á rétt mið. En mér finnst eins og fólki líði eins og allt sé eins og það var nema nú sé landið rekið af ömurlegum stjórnendum. Og það fyllir mann ákveðnu vonleysi.

Gamla pólitíkin búinVið höfum svo ofboðslega margt sem við getum verið montin af. Menningin er einn af þeim hlutum sem hefur gert ofboðslega mikið fyrir okkur sem þjóð, bæði andlega og fjárhagslega. Nú höfum við kynslóðir krakka sem sjá að það er hægt að vinna fyrir sér í því sem maður hefur ástríðu fyrir.

Annað er að við áttum okkur ekki á því hvað fólki finnst náttúran okkar mögnuð og hversu margir eru til í að eyða tíma sínum og peningum í hana.

Grundvallargildi Besta flokksins eru menning, mannúð, náttúra og friður. Eitt af því sem við getum líka mjög auðveldlega sett meiri kraft í er friðurinn. Þegar fólk úti í heimi hugsar um Ísland á það að vita að hér ríkir friður, að Íslendingum sé umhugað um frið og að hingað sé gott að koma."

Gaukur segir óþolandi að horfa upp á hvernig umræðan sé gagnvart stjórnvöldum. „Ég held að Steingrímur og Jóhanna séu að gera sitt allra besta á öllum sviðum. Ég er ekki að segja að allt sem þau geri sé frábært, en ég held að þau séu að spila eins vel úr stöðunni og hægt er og vinna eins og berserkir – og fá ekkert nema skít í staðinn. Og það er óþolandi að horfa upp á."

Gaukur segir að mannkynssagan sýni okkur hvaða ástand kemur í kjölfarið af mikilli eymd og sjálfsvorkunn. „Mér finnst eins og Framsóknarflokkurinn sé búinn að finna lyktina af þessu og ætli að stíga inn í þennan dans.

Þessi pólitík er hins vegar búin, hún verður að vera það. Fólk verður að fara að tala við aðra eins og það vill láta tala við sig. Ég vil hvorki láta öskra á mig allan daginn né þurfa að öskra á aðra."



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×