Íslenski boltinn

Bjarni með horn í síðu mótherjanna í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Guðjónsson ræðir hér við sína menn í leiknum í Keflavík.
Bjarni Guðjónsson ræðir hér við sína menn í leiknum í Keflavík. fréttablaðið/Valli
Hornspyrna Bjarna Guðjónssonar skilaði KR-ingum sigri á móti Keflavík í fyrrakvöld og þar með þriggja stiga forystu á toppnum. Bjarni var þarna að leggja upp sjöunda markið sitt í sumar úr hornspyrnu og KR-liðið hefur alls skorað 10 af 41 marki sínu eftir horn.

„Við erum með rosalega öfluga skallamenn,“ sagði Bjarni Guðjónsson, fyrirliði KR og hornspyrnusérfræðingur liðsins.

„Við unnum dálítið í þessu í vetur og annað slagið í sumar höfum við farið yfir hornin okkar og hvað við getum gert betur og svo framvegis,“ sagði Bjarni.

„Markið í gær var alveg frábært. Það er gömul klisja að ef þú ert duglegur að skora úr hornum og aukaspyrnum getur það unnið fyrir þig leiki. Að sama skapi tapar þú leikjum ef þú ert ekki nógu góður að verjast þeim,“ segir Bjarni.

Hornin hafa skilað fleiri sigrum í sumar en í Keflavík því þetta var þriðja sigurmark KR-inga sem kemur eftir horn. Að auki fengu þeir víti eftir horn á móti Fram sem skilaði dýrmætu marki í lokin. Undirbúningur þess marks var keimlíkur sigurmarkinu í Keflavík.

„Það var eiginlega nákvæmlega eins. Boltinn var þá mjög svipaður og Aron kom á fleygiferð á nærstöng, skallaði og varnarmaður Fram varði hann með hendinni,“ rifjar Bjarni upp.

„Aukaspyrnurnar hafa ekki alveg gengið jafn vel og hornin en ég hefði samt viljað sjá okkur skora fleiri mörk úr hornum og aukaspyrnum,“ segir Bjarni.

Bjarni hefur alls átt níu stoðsendingar í sumar og hefur komið að undirbúningi tólf marka.

„Ég ætlaði reyndar að skora tíu mörk í sumar en markmiðinu er þarna næstum því náð,“ segir Bjarni að lokum í léttum tón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×