Íslenski boltinn

Kaplakrikinn á að vera vígi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Atli átti góðan leik gegn KR og er leikmaður umferðarinnar hjá Fréttablaðinu.
Atli átti góðan leik gegn KR og er leikmaður umferðarinnar hjá Fréttablaðinu. Fréttablaðið/Daníel
FH-ingar urðu fyrstir til að sigra KR í Pepsi-deild karla í sumar þegar liðin mættust á Kaplakrikavelli um helgina. FH vann 2-1 sigur og skoraði Atli Guðnason fyrra mark Hafnfirðinga í leiknum en átti þess fyrir utan stóran þátt í öflugum sóknarleik FH. Hann er leikmaður 18. umferðarinnar að mati Fréttablaðsins.

„Þetta var mjög góður sigur. Kannski helst til tæpur miðað við hvernig leikurinn þróaðist en þetta voru þrjú góð stig sem koma til með að hjálpa okkur mikið,“ segir Atli, en FH-ingar höfðu mikla yfirburði í leiknum þar til KR minnkaði muninn á 72. mínútu.

„Við vorum klaufar að vera ekki búnir að skora fleiri mörk, sérstaklega í byrjun seinni hálfleiks þegar við sköpuðum okkur 3-4 mjög góð færi,“ segir Atli, en hann segir leikskipulag FH hafa gengið mjög vel fram að því.

„KR er með fljóta sóknarmenn og við vörðumst aftar á vellinum en við gerum venjulega. Við reyndum að lokka þá til okkar og fá þá til að missa boltann á góðum stöðum. Það gaf okkur tækifæri til að sækja hratt á þá og það tókst í um 70 mínútur. Þá komust þeir í sókn og skoruðu mark sem sló okkur aðeins út af laginu. En sem betur fer erum við með góðan markvörð sem varði vel í lokin,“ segir Atli.

FH er nú með 34 stig og er fimm stigum á eftir toppliði ÍBV. KR er með 38 stig en á leik til góða. Atli segir ómögulegt að spá í framhaldið.

„ÍBV og KR eiga eftir að mætast innbyrðis og þangað til er mjög erfitt að meta stöðuna. Hvað okkur sjálfa varðar er ljóst að við getum ekki treyst á okkur sjálfa í titilbaráttunni og því er lítið annað í stöðunni en að ná í eins mörg stig og við getum og sjá hvað það færir okkur. Það sem mestu máli skiptir fyrir félagið í dag er að tryggja liðinu sæti í Evrópukeppninni og við tókum stórt skref í þá átt með þessum sigri,“ segir Atli, en FH er nú með fimm stiga forystu á næsta lið, Val, sem er í fjórða sætinu.

Atli neitar því ekki að það hafi verið skemmtilegt að verða fyrsta liðið til að vinna KR í deild eða bikar í sumar en það sé þó ekki það sem mestu máli skipti.

„FH hefur ekki tapað í Kaplakrika á tímabilinu, hvort sem er í deild, bikar eða Evrópukeppninni. Við viljum halda því þannig. Kaplakrikinn á að vera vígi og þangað á ekkert lið að geta komið og náð í þrjú stig,“ segir Atli, en FH hefur náð í 23 stig af 27 mögulegum á heimavelli í sumar – flest allra liða í deildinni.

Það er því fyrst og fremst heldur dapurt gengi á útivelli sem hefur gert það að verkum að FH stóð lengi vel heldur langt fyrir utan toppbaráttuna. Atli segir að meiðsli og leikbönn hafi sett strik í reikninginn.

„Árið 2009 keyrðum við liðið áfram á 12-13 leikmönnum allan fyrri hluta mótsins og þá unnum við tíu leiki í röð. Í ár hefur þetta verið eins og í fyrra – minni stöðugleiki og liðið hefur verið lengi í gang. Í fyrra komum við bakdyramegin inn í toppbaráttuna en við skulum sjá til hvernig lokaspretturinn verður hjá okkur í ár,“ segir Atli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×