Íslenski boltinn

Sögulegt sumar hjá KR

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
KR-ingarnir Bjarni Guðjónsson, Guðjón Baldvinsson og Kjartan Henry Finnbogason fagna marki í sumar.
KR-ingarnir Bjarni Guðjónsson, Guðjón Baldvinsson og Kjartan Henry Finnbogason fagna marki í sumar. Fréttablaðið/Vilhelm
Sumarið 2011 er þegar orðið sögulegt fyrir KR-inga, sem eru á góðri leið með að verða fyrsta félagið á þessari öld sem vinnur tvöfalt (síðast KR árið 1999), það er verður bæði Íslandsmeistari og bikarmeistari. Strákarnir hans Rúnars Kristinssonar hafa þegar unnið bikarinn og í síðasta leik sínum settu þeir nýtt met með því að verða fyrsta liðið sem leikur 21 leik inn í tímabil án þess að bíða ósigur.

KR-ingar fóru taplausir inn í landsleikjafríið eftir 2-1 sigur á Fram í 21. leik sínum í deild og bikar í sumar. Þeir bættu með því met Valsmanna sem töpuðu í 21. leik sínum árið 1978 og höfðu setið lengi í efsta sæti á listanum yfir þau félög sem hafa spilað lengst inn í tímabil án þess að tapa.

Tapleikur Valsmanna í september 1978 var bikarúrslitaleikurinn á móti Skagamönnum á Laugardalsvellinum. Valsmenn unnu 19 fyrstu leiki sína það sumar, tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með jafntefli í 20. leiknum en töpuðu svo 0-1 fyrir ÍA í Laugardalnum þar sem hinn nítján ára Pétur Pétursson, núverandi aðstoðarþjálfari KR, skoraði eina markið og það með hægri fæti. Þetta Valslið er enn fremur síðasta liðið sem fer taplaust í gegnum Íslandsmótið.

Bikarúrslitin hafa reynst erfiðÞau lið sem hafa spilað lengst inn í tímabil án þess að tapa eiga það reyndar nokkur sameiginlegt að hafa tapað sínum fyrsta leik í bikarúrslitum. Svo var raunin hjá Keflvíkingum sumarið 1973 og Skagamönnum sumarið 1974 en þau lið áttu bæði metið á undan Valsmönnum. Keflavík tapaði bikarúrslitaleiknum fyrir Fram árið 1973 aðeins fjórum dögum eftir að varalið liðsins hafði unnið Fram í deildinni. Skagamenn komu einnig taplausir inn í bikarúrslitaleikinn árið eftir en steinlágu þá óvænt 1-4 fyrir Val.

Aðeins tvö önnur lið frá þessari öld komast inn á topp tíu listann. Fylkismenn voru taplausir í fyrstu ellefu leikjum sínum sumarið 2000 og fimm árum síðar unnu FH-ingar 14 fyrstu leiki sína áður en þeir töpuðu í vítakeppni á móti Fram í undanúrslitum bikarsins.

Fari KR-ingar í gegnum síðustu sex leiki sína í Pepsi-deildinni án þess að tapa leik geta þeir orðið fyrsta liðið í 52 ár sem tapar ekki deildar- eða bikarleik á tímabili. Því náði síðast lið KR árið 1959.

Það KR-lið vann alla tíu deildarleiki sína á tímabilinu en bikarkeppnin var ekki sett á laggirnar fyrr en árið eftir. Ekkert félag í sögu íslenskar knattspyrnu hefur því farið taplaust í gegnum tímabil síðan farið var að keppa í bikarkeppninni haustið 1960.

Erfiður leikur í KrikanumKR-ingar heimsækja FH-inga í Kaplakrikann á morgun en FH-ingar hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn fimm sinnum síðan KR vann Íslandsbikarinn síðast haustið 2003.

Þetta er af stóru prófum KR-inga á lokasprettinum en liðið hefur nú tveggja stiga forskot á ÍBV auk þess að eiga leik inni. FH-ingar eru sjö stigum á eftir og verða því endanlega úr leik tapi þeir fyrir KR á morgun.

Flestir leikir inn í tímabil án þess að tapa

21 - KR 2011 (16 sigrar, 5 jafntefli)

20 - Valur 1978 (19 sigrar, 1 jafntefli)

Tapið: 27. ágúst á móti ÍA (0-1) í bikarúrslitum

17 - ÍA 1974 (12 sigrar, 5 jafntefli)

Tapið: 14. september á móti Val (1-4) í bikarúrslitum

16 - Keflavík 1973 (15 sigrar, 1 jafnt.)

Tapið: 12. september á móti Fram (1-2) í bikarúrslitum

14 - FH 2005 (14 sigrar, 0 jafntefli)

Tapið: 3. ágúst á móti Fram (vítakeppni) í undanúrslitum bikarsins

13 - Fram 1972 (8 sigrar, 5 jafntefli)

Tapið: 17. september á móti KR (1-2) í 16 liða úrslitum bikarsins

13 - KR 1996 (11 sigrar, 2 jafntefli)

Tapið: 29. júlí á móti ÍBV (0-1) í undanúrslitum bikarsins

12 - ÍA 1992 (9 sigrar, 3 jafntefli)

Tapið: 25. júlí á móti Val (1-5) í deildinni

11 - Valur 1976 (7 sigrar, 4 jafntefli)

11 - Fram 1988 (10 sigrar, 1 jafntefli)

11 - Fylkir 2000 (7 sigrar, 4 jafntefli)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×