Erlent

Sjálfstætt Wales væri 39 prósentum ríkara

Sjálfstæðisbaráttan í Wales er ekki ýkja burðug en Adam Price vonar að ný rannsókn sín ýti við fólki. Samkvæmt henni standa smáríki sig betur innan Evrópusambandsins en stór ríki.
Sjálfstæðisbaráttan í Wales er ekki ýkja burðug en Adam Price vonar að ný rannsókn sín ýti við fólki. Samkvæmt henni standa smáríki sig betur innan Evrópusambandsins en stór ríki. Nordicphotos/afp
Ef Wales hefði sagt skilið við Bretland og fengið sjálfstæði þegar Berlínarmúrinn féll, árið 1989, væri það um 39 prósentum ríkara land en það er.

Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar Adams Price, sem var áður þingmaður í Wales en starfar nú við Harvard-háskóla.

Rannsóknarskýrslan fjallar um smáríki í Evrópu og efnahagskrísuna og skoðar Price hvort stærð ríkja hafi hugsanlega áhrif á efnahagslega velgengni. Samkvæmt skýrslunni hefði hagvöxtur í Wales verið að meðaltali 2,5 prósentum meiri á ári hverju ef það hefði verið sjálfstætt á tímabilinu.

Price sér fyrir sér að Wales geti staðið á eigin fótum innan Evrópusambandsins og hefur sérstaklega borið saman ríki innan þess. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að innan ESB farnist smáríkjum betur en þeim stóru.

„Það virðist vera einhver smáríkjabónus. Ef ríkið er lítið, síðustu þrjátíu árin í Evrópusambandinu, þá gengur því betur," segir Price við BBC.

Þá gefur rannsóknin til kynna að smáríki vinni sig fyrr út úr kreppum en önnur.

Niðurstöður Price breyta því ekki að Walesbúar eru íhaldssamir í þessum efnum. Einungis tíu prósent þeirra vilja sjálfstæði, samkvæmt skoðanakönnunum.

- kóþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×