Innlent

Járnsmiður, silfurrani og tungljurt nema land

Gróskumikið graslendi hefur myndast á suðurhluta Surtseyjar og baldursbráin er áberandi.
Gróskumikið graslendi hefur myndast á suðurhluta Surtseyjar og baldursbráin er áberandi. Mynd/Borgþór Magnússon
Nokkrar nýjar tegundir fundust í árlegri ferð vísindamanna til Surtseyjar. Tanginn norðan á eyjunni hefur minnkað um 100 metra á einu ári, að því er fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Meðal nýrra landnema sem biðu vísindamannanna í Surtsey þetta árið var tungljurt, sem er smávaxin burknategund. Hún er sjötugasta tegund háplantna sem nemur land á eynni. Gróskumikið graslendi hefur myndast á suðurhluta Surtseyjar. Í ferðinni fundust einnig í fyrsta skipti bjöllutegundirnar járnsmiður og silfurrani.

Talið er að ellefu tegundir fugla hafi verpt í eynni þetta árið, en fýll, svartbakur, sílamáfur og silfurmáfur voru algengustu tegundirnar á eyjunni.

Surtsey sjálf hefur verið að minnka að flatarmáli undanfarin ár þar sem sjórinn brýtur niður sandstrendurnar. Borgþór Magnússon, leiðangursstjóri í ferðinni, segir að Surtsey hafi verið um 2,7 ferkílómetrar að flatarmáli eftir gos, en sé nú um 1,3 ferkílómetrar.

Borgþór segir ekki talið að Surtsey sökkvi í sæ í bráð, enda harður móbergskjarni sem mun væntanlega standa þótt annað eyðist utan af henni.

Nú má sjá hraunjaðarinn í flæðarmálinu, en upprunalega var jaðarinn um 500 metra frá vesturströndinni.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×