Innlent

Æskulýðsfélög vilja kynferðisbrotafagráð

Guðrún jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að heildarbreytinga sé þörf.
Guðrún jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir að heildarbreytinga sé þörf. Mynd/gva
Guðrún Ögmundsdóttir Formaður fagráðs telur brýnt að skoða meðferð kynferðisbrota hjá æskulýðs- og íþróttafélögum.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur heyrt af því að íþrótta- og æskulýðsfélög vilji að stofnað verði fagráð eða skýrar verklagsreglur settar um meðferð kynferðisbrota sem framin eru innan vébanda félaganna.

Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri mennta- og menningarmálaráðuneytisins, segir enn enga formlega beiðni hafa borist ráðuneytinu, en henni verði tekið fagnandi.

„Við höfum heyrt af því að innan frjálsra félagasamtaka eins og ÍSÍ, skátanna, KFUM og KFUK sé áhugi fyrir því að að búa að minnsta kosti til skýra viðbragðs-áætlun vegna þessara mála,“ segir Ásta. „Við vitum að þetta er í deiglunni.“

Guðrún Ögmundsdóttir, formaður fagráðs innanríkisráðuneytisins um meðferð kynferðisbrota innan trúfélaga, segir afar brýnt að skoða þau lög sem snúa að meðferð kynferðisbrota. Áætlanir séu um að fagráðið fari í samstarf við önnur ráðuneyti í haust til að skoða meðferð kynferðisbrota innan íþrótta- og æskulýðsfélaga.

„Næsta skref er að skoða lög um íþrótta- og æskulýðsmál, sem er afar brýnt,“ segir Guðrún og telur nauðsynlegt að skoða alla lagabálka um fagráð og siðareglur. „Í haust munum við sjá slíkar lagabreytingar, ég efast ekki um það.“

Tilkynningum um mál tengd kynferðislegu ofbeldi mun fjölga með stofnun nýs fagráðs, að mati Guðrúnar.

„Þegar það gerist má búast við gömlum málum úr þessum geira,“ segir Guðrún. „Við eigum eflaust eftir að sjá mun fleiri mál. Ég held að þetta sé bara toppurinn á ísjakanum.“ Hún ítrekar að afar brýnt sé að setja sterkar siðareglur og lagaramma í tengslum við kynferðisbrot innan alls barna- og unglingastarfs, ekki einungis trúfélaga.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, telur þessar hræringar með skipun fagráða tákn um aukna vitund, áhyggjur og ábyrgð í kynferðisbrotamálum. Hún bendir jafnframt á að það sé einnig til marks um að heildarstefnumörkun þurfi að eiga sér stað í málaflokknum.

„Það er augljóst að það kerfi sem við búum við dugar ekki. Þess vegna þarf að gera allsherjar breytingu í þessum málum,“ segir Guðrún. „Það þarf að fara ofan í alla sauma og finna framtíðarlausn.“

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×