Lífið

Aðdáandi Quarashi fékk gigg

David Demkö pantaði sér flugfar til Íslands til að sjá tónleika Quarashi. Hann vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar honum var boðið að troða upp á Bestu útihátíðinni.
David Demkö pantaði sér flugfar til Íslands til að sjá tónleika Quarashi. Hann vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar honum var boðið að troða upp á Bestu útihátíðinni.
„Ég er mjög spenntur fyrir því að spila á Íslandi en líka kvíðinn því þetta verður í fyrsta skipti sem ég spila í útlöndum,“ segir plötusnúðurinn DJ Red.

Fréttablaðið greindi á dögunum frá væntanlegri Íslandsför DJ Red, eða David Demkö eins og hann heitir réttu nafni. Hann er harður aðdáandi íslensku rappsveitarinnar Quarashi og þegar hann frétti af endurkomutónleikum sveitarinnar á Bestu útihátíðinni var hann ekki lengi að bóka sér flugmiða til Íslands. Skipuleggjendur hátíðarinnar lásu viðtalið í Fréttablaðinu og tóku eftir því að David kemur fram sem plötusnúður. Þeir voru ekki lengi að bjóða honum að troða upp á hátíðinni sem hann þáði með þökkum. „Ég er mjög spenntur að spila á hátíðinni en ég er ennþá meira spenntur að sjá Quarashi. Ég hélt að ég myndi aldrei sjá bandið á sviði,“ segir plötusnúðurinn.

DJ Red segir að hann sé vanur að spila á minni tónleikum en þeim sem fram undan séu. „En það er bara hallærisleg leið til að segja að ég spila venjulega fyrir litla hópa í partíum og þannig viðburðum,“ segir hann og hlær. „Ég hef reyndar alveg spilað á stórum viðburðum en það er meiri bakgrunnstónlist en alvöru framkoma samt.“

David Demkö hefur komið fram sem plötusnúður síðustu fimm árin. Hann hefur lengi verið kallaður Red vegna háralitar síns og því kom aldrei annað plötusnúðanafn en DJ Red til greina. Hægt er að hlusta á tónlist hans á DJRed1.bandcamp.com og svo má finna aðdáendasíðu hans á Facebook undir OfficialDJRed. En hverju mega gestir Bestu útihátíðarinnar eiga von á frá Dj Red?

„Ég ætla að spila fjölbreytta tónlist, hip hop, raftónlist og fleira. Ég er spenntur að sjá hvað fólk vill heyra og hvernig það bregst við lögum og efni sem það þekkir ekki.“-hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.