Innlent

Forseti ESA: Nú verðið þið að borga

Per Sanderud. Þolinmæði okkar er á þrotum, segir forseti Eftirlitsstofnunar EFTA. Mynd/Anton
Per Sanderud. Þolinmæði okkar er á þrotum, segir forseti Eftirlitsstofnunar EFTA. Mynd/Anton
„Við höfum verið mjög þolinmóð og gefið lengri frest en aðrir fá. En nú verðið þið að borga," segir Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA.

ESA sendi stjórnvöldum áminningarbréf í maí í fyrra þar sem lýst var þeirri skoðun að Íslendingar hefðu ekki farið eftir tilskipun samnings Evrópska efnahagssvæðisins (EES) um innstæðutryggingar. Stjórnvöld svöruðu bréfinu í maí síðastliðnum og mótmæltu.

ESA heldur fast við sinn keip og hefur nú gefið stjórnvöldum þriggja mánaða frest til viðbótar til andsvara. Berist svarið ekki innan marka eða það sé ekki fullnægjandi mun Icesave-málið fara fyrir EFTA-dómsstólinn.

Per Sanderud segir Íslendinga hafa með réttu átt að greiða innstæðutrygginguna skömmu eftir hrunið. Að gefnum öllum frestum rann gjalddaginn upp í október 2009.

ESA ákvað hins vegar að bíða með ákvörðun sína þar til viðræðum samninganefndar við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi lyki. „Við höfum ekki viljað blanda okkur í mál ykkar og verið þolinmóð. En nú hafið þið kosið um það í tvígang. Nú hefur liðið svo langur tími síðan þið áttuð að greiða trygginguna að við getum ekki beðið lengur," segir Sanderud. Hann leggur áherslu á að um mikilvægt neytendamál sé að ræða, innstæðueigendur verði að geta treyst því að fá lágmarkstryggingu greidda.

Álit ESA er ekki í mótsögn við neyðarlögin þótt þar sé komið inn á mismunun stjórnvalda á innstæðueigendum eftir þjóðerni. Það snýst öðru fremur um tilskipun um innstæðutryggingar sem Íslendingar undirgengust þegar EES-samningurinn var fullgildur. „Þið verðið að uppfylla þær skyldur sem stjórnvöld hafa gengist undir með aðild sinni að EES-samningnum," segir Sanderud.- jab



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×