Innlent

Íslendingar sækja aftur í sólina

Eftir samdráttarskeið njóta ferðalög til heitra og sólríkra staða nú vaxandi vinsælda.
Eftir samdráttarskeið njóta ferðalög til heitra og sólríkra staða nú vaxandi vinsælda.
Aukin ásókn hefur verið í sólarlandaferðir hjá Íslendingum síðustu tvö ár. Hjá Úrval-Útsýn hefur verið tíu til fimmtán prósenta aukning í ferðir á milli ára. „Stóra breytingin er sú að fólk er að bóka sig með meiri fyrirvara en áður. Nú virðist það ákveðnara í að fara,“ segir Þorsteinn Guðjónsson, forstjóri Úrvals-Útsýnar.

Að sögn Þorsteins varð um 50 prósenta samdráttur í slíkar ferðir eftir efnahagshrunið. Samdrátturinn hafi helst verið hjá ungu fólki eða fólki sem var nýkomið út á fasteignamarkaðinn.

„Sá hópur datt að mestu leyti út eftir hrunið en er farinn að hreyfa sig á ný. Það varð mun minni samdráttur í ferðum hjá eldra fólki.“

Þorsteinn segir að Íslendingar sæki sem fyrr í sólina. Úrval-Útsýn bjóði til að mynda upp á fimm áfangastaði á suðrænum slóðum í sumar, þar á meðal Barcelona, Tenerife, Alicante og Almeria sem er nýr áfangastaður.

„Við reynum alltaf að vera með einhverjar nýjungar en síðustu ár virtist sem fólk vildi bara ganga að einhverju vísu, eitthvað sem það vissi að væri öruggt. Nú erum við hins vegar farin aftur af stað með nýjungar og það virðist falla vel í kramið hjá Íslendingum.“ - kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×