Innlent

Endurbætur fyrir 275 milljónir

Töluverðar framkvæmdir eru í kortunum við Nauthólsvík, meðal annars gerð gufubaðs á svæðinu. fréttablaðið/e.ól.
Töluverðar framkvæmdir eru í kortunum við Nauthólsvík, meðal annars gerð gufubaðs á svæðinu. fréttablaðið/e.ól.
Framkvæmdaáætlun við endurbætur á sundlaugum í Reykjavík mun kosta borgina 275 milljónir króna. Alls er gert ráð fyrir 500 milljónum í fjárhagsáætlun ársins. Borgarráð samþykkti framkvæmdaáætlunina á fundi sínum í gær.

Þær endurbætur sem snúast ýmist um viðhald eða nýframkvæmdir ná til allra almenningslauga Reykjavíkur og Ylstrandarinnar í Nauthólsvík. Framkvæmda- og eignasviði er nú heimilt að hefjast handa við hönnun og framkvæmdir.

Hönnun er hafin á gufubaði á Ylströndinni og einnig stendur til að fjölga leiktækjum á því svæði. Í tilkynningu frá borgarráði kemur fram að hvort tveggja tengist þeirri hugmynd að halda ströndinni opinni allt árið þar sem sjósund verður vinsælla með hverju ári. Þó fer rúmur helmingur framkvæmdafjár til Laugardalslaugar, í gönguleiðir á svæðinu, sjópott og endurgerð búningsherbergja. Eimbaðið í Grafarvogslaug verður endurgert, nuddpottur settur í Árbæjarlaug og verið er að skoða uppsetningu líkamsræktaraðstöðu við Breiðholtslaug.

Borgarráð segir framkvæmdirnar efla atvinnu í borginni og þær valdi ekki auknum kostnaði borgarsjóðs til lengri tíma litið.

- sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×