Erlent

Forsætisráðherra Breta vill hertar aðgerðir

David Cameron forsætisráðherra Bretlands
David Cameron forsætisráðherra Bretlands
Utanríkisráðherrar átta helstu iðnríkja heims ætla að funda á mánudag og þriðjudag um borgarastyrjöldina í Líbíu. Varnarmálaráðherrar Atlantshafsbandalagsins (NATO) náðu ekki samkomulagi um aðgerðir gegn einræðisstjórn Múammars Gaddafís og stuðningsmönnum hans síðla í vikunni.

Varnarmálaráðherrar Breta og Frakka eru þeir einu sem hafa talað fyrir því bæði á fundum aðildarríkja NATO og Evrópusambandsins í vikunni að beita hörku gegn Gaddafí og stuðningsherjum hans. Fulltrúar landanna hafa lagt drög að tillögu sem leggja á fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og felur í sér að flugbann verði sett yfir Líbíu. Tillagan hefur ekki hlotið samþykki Rússa, Kínverja, Þjóðverja og Ítala, sem vilja fara hægar í sakirnar, að sögn AFP-fréttastofunnar. Fulltrúar þjóðanna hvetja Gaddafí til að stíga af valdastóli og vilja taka upp viðræður við uppreisnarmenn.

Stjórnarher Gaddafís sótti í sig veðrið þegar líða tók á vikuna og hrakti uppreisnarmenn á brott frá hafnarborginni Ras Lanuf í norðurhluta landsins. Saíf al-Islam Gaddafí, sonur einræðisherrans, sagði í sjónvarpsávarpi í gær stjórnarherinn ekki ætla að gefast upp fyrir uppreisnarmönnum.

„Þetta er okkar land. Við ætlum að deyja hér,“ sagði hann og þvertók fyrir að landar sínir myndu fagna því ef herlið NATO eða annarra bandalagsríkja kæmi til landsins.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, brást reiður við andstöðu vestrænna ríkja við því að beita hervaldi gegn Gaddafí í ræðu sinni um málið í Brussel í Belgíu í gær. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×