Innlent

Fleiri vilja niðurskurð en skattahækkanir

Meirihluti landsmanna vill frekar að ríki og sveitarfélög skeri niður þjónustu en að þau hækki skatta og álögur vegna erfiðrar fjárhagsstöðu, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls sögðust 62,9 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni að frekar ætti að beita niðurskurði. Um 37,1 prósent vildi frekar skattahækkanir.

Mikill meirihluti stuðningsmanna annarra flokka en Vinstri grænna vill frekar niðurskurð en skattahækkanir. Af þeim sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn yrði gengið til þingkosninga nú sögðust ríflega 77 prósent frekar vilja niðurskurð. Sama sagði tæplega 61 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar og 60 prósent stuðningsmanna Framsóknarflokksins.

Stuðningsmenn Vinstri grænna skáru sig úr hópnum. Í þeim hópi vildu aðeins tæplega 22 prósent frekar niðurskurð, en rúmlega 78 prósent sögðust frekar vilja skattahækkanir. Ekki reyndist marktækt að reikna afstöðu stuðningsmanna Hreyfingarinnar.

Talsverður munur var á svörum kynjanna. Tæplega 60 prósent kvenna kjósa frekar niðurskurð en skattahækkanir en ríflega 66 prósent karla.

Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru líklegri til að vilja frekar niðurskurð en skattahækkanir. Alls vilja tæplega 66 prósent borgarbúa frekar niðurskurð, en ríflega 58 prósent íbúa landsbyggðarinnar.

Hringt var í 800 manns miðvikudaginn 23. febrúar og fimmtudaginn 24. febrúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Hvort finnst þér að eigi heldur að beita niðurskurði eða skattahækkunum í glímu ríkis og sveitarfélaga við erfiða fjárhagsstöðu? Alls tóku 52,6 prósent afstöðu.

- bjAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.