Innlent

Ráðherrar geti vikið sæti á Alþingi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Valgerður Bjarnadóttir.
Valgerður Bjarnadóttir.
Þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi nema Sjálfstæðisflokknum hafa lagt frumvarp þess efnis að ráðherrar geti tekið ákvörðun um að sitja ekki á Alþingi á meðan þeir gegna embætti. Tillagan hefur áður verið flutt en ekki verið samþykkt. Nýti ráðherrar sér þennan möguleika yrði þeim heimilt að taka þátt í umræðum á Alþingi en ættu ekki atkvæðisrétt.

Þingmennirnir, sem standa að baki frumvarpinu, telja að með þessu fyrirkomulagi væri þrígreining ríkisvaldsins styrkt enn betur í sessi. Benda þeir á að í tillögum stjórnlagaráðs sé lagt til að skýrt verði kveðið á um að þingmaður sem skipaður verði ráðherra skuli víkja úr þingsæti á meðan hann gegnir ráðherraembætti og varamaður hans taka sæti hans á meðan.

„Verði frumvarp um breytingu á stjórnarskrá samþykkt getur breytingin eðli máls samkvæmt ekki tekið gildi fyrr en á nýju kjörtímabili. Það frumvarp sem nú er lagt fram gerir þeim sem svo kjósa kleift að hafa þennan háttinn á strax á þessu kjörtímabili," segja þingmennirnir í greinagerð með tillögunni.

Það er Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×