Innlent

Á annað þúsund hafa greinst með lifrarbólgu

Á annað þúsund manns hafa greinst með lifrarbólgu B eða C frá aldamótum. Sóttvarnalæknir segir um alvarlegan faraldur að ræða, en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin lýsir þungum áhyggjum af ástandinu á heimsvísu.

Frá aldamótum hafa um 420 manns greinst með lifrarbólgu B hér á landi og 790 manns með lifrarbólgu C, alls fleiri en 1200 manns.

Haraldur Briem, sóttavarnalæknir, segir að um gríðarlegan farald sé að ræða. „Hann byrjaði á 9. áratugnum og náði kannski hámarki fyrir 10 árum. Þetta er stórfaraldur. Ég vil benda á að það eru meðferðarmöguleikar. Það er hægt að lækna mjög marga sem sýkjast."

Haraldur segir að það séu einkum fíklar sem smitast. Afar fátítt er að blóðþegar smitist af sjúkdómunum í seinni tíð eins og var. „Núorðið er þetta nánast eingöngu þeir sem eru sprauta sig með fíkniefnum."

Að meðaltali greinast þannig 110 manns með annað hvort afbrigðið á ári hverju, en það jafngildir því að nýtt smit greinist á rúmlega þriggja daga fresti allan ársins hring. Haraldur segir að lifrarbólga C læknist aðeins í um þriðjungi tilfella, en viðvarandi sýking geti með tímanum leitt til skorpulifrar eða krabbameins. Því geti sjúkdómurinn orðið alvarlegt vandamál í framtíðinni.

Alþjóðaheilbrigiðsstofnunin lýsir þungum áhyggjum af þessari þróun á heimsvísu þar sem meira en tugur milljóna er sýktur af lifrarbólguveiru, einkum sprautufíklar eins og hér, en meirihluti sprautufíkla í heiminum hefur komist í snertingu við eitthvert afbrigði veirunnar.

„En það er þannig að til þess að verjast þessu þá gilda sömu lögmál og fyrir HIV. Menn verða að passa sig á að vera ekki að skiptast á sprautum og nálum," segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×