Innlent

Búast við stjörnuhröpum í kvöld

Í kvöld gæti mörgum gefist tilefni til að óska sér enda líkur á hundruðum stjörnuhrapa.
Í kvöld gæti mörgum gefist tilefni til að óska sér enda líkur á hundruðum stjörnuhrapa.
Nokkur hundruð stjörnuhröp gætu sést í kvöld þegar jörðin fer í gegnum straum agna frá halastjörnu en um mikið sjónarspil er að ræða að sögn formanns Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Stjörnuáhugamenn eru hvattir til þess að horfa til Drekans.

Nokkra daga á ári hverju fer jörðin gegnum loftsteinastrauma og sjást þá óvenjumörg stjörnuhröp á himnum. Stjörnufræðingar hafa leitt að því líkum að meiriháttar sýning sé í uppsiglingu í kvöld en þá mun jörðin fara í gegnum sæg smárra brota úr halastjörnunni Giacobini-Zinner eða 21 p. Spáin gerir ráð fyrir að jörðin fari í gegnum hnykla sem myndast hafi seint á 19.öld.

Sævar Helgi Bragason er formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Hann segir að mikið sjónarspil geti orðið þegar fer að rökkva í kvöld. Hann bendir þó á að tunglið gæti sett strik í reikninginn, en það er nú vaxandi. Því sé mikilvægt að horfa frá tunglinu til þess að sjá hröpin sem best.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×