Innlent

Ver skipun forstjóra í hæfisnefnd

Haraldur Flosi Tryggvason
Haraldur Flosi Tryggvason
Kjartan Magnússon
Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar segir í umsögn um ráðningarferli forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur (OR) að álitamál sé hvort rétt hafi verið að skipa Helga Þór Ingason, þáverandi forstjóra, í hæfisnefnd til að meta væntanlega arftaka. Það sé „nær óþekkt“ eins og segir í umsögninni, sem kynnt var á stjórnarfundi hinn 12. ágúst.

Meginniðurstaða innri endurskoðunar er að faglega hafi verið staðið að ráðningunni. Athugasemdir voru hins vegar gerðar við fundarritun stjórnar, sem hefði ekki verið nógu ítarleg og því ekki í samræmi við starfsreglur.

Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í stjórn OR, sagði í bókun á fyrrnefndum fundi að skýrsla Innri endurskoðunar væri „áfellisdómur yfir vinnubrögðum meirihluta“ og ferlið hefði ekki verið gagnsætt eða faglegt.

Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður OR, segir hins vegar að niðurstaðan sýni að vel hafi verið staðið að ferlinu í flestum atriðum.

„Það var kannski helst ég sem fékk ákúrur fyrir að hafa ekki verið nógu duglegur að bóka það sem gerðist á fundum, en ég baðst afsökunar á því á stjórnarfundinum.“

Haraldur segir aðkomu Helga Þórs að mati umsækjenda hafa verið rökrétta í þessu tilfelli „Hann kom inn í OR með afar sérstökum hætti, meðal annars beinlínis til þess að að ráða nýjan forstjóra. Þetta var kannski óvenjulegt en staða OR var óvenjuleg.“ - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×