Erlent

Rússar hættir að kaupa Kalashnikov

Kalashnikov hershöfðingi sýnir stoltur sköpunarverk sitt. Því hefur verið fleygt að riffillinn hafi verið notaður í hverju einasta stríði sem háð hefur verið frá lokum seinni heimsstyrjaldar.
Kalashnikov hershöfðingi sýnir stoltur sköpunarverk sitt. Því hefur verið fleygt að riffillinn hafi verið notaður í hverju einasta stríði sem háð hefur verið frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Mynd/AP
Rússneski herinn ætlar að hætta að kaupa Kalashnikov riffilinn, eitt frægasta vopn sögunnar. Riffillinn var hannaður af hershöfðingjanum Mikhail Kalashnikov árið 1947 sem í kjölfarið varð að þjóðhetju í Sovétríkjunum. Litlar breytingar hafa hinsvegar verið gerðar á vopninu og nú vill herinn ekki kaupa fleiri riffla nema framleiðandinn endurhanni gripinn í takt við nýjustu tækni.

Að auki eru vopnabúr Rússa troðfull af ónotuðum rifflum frá Sovét tímanum sem þeir reikna með að endist hernum í tuttugu ár hið minnsta. „Við eigum nóg af þessu, og þú kaupir þér ekki þrjá ísskápa í eldhúsið eða fimm sjónvörp í stofuna,“ segir talsmaður hersins í samtali við rússneska blaðið Izvestia.

Talsmenn Izmash, sem framleiðir riffilinn segjast hinsvegar ekki þora að segja hershöfðingjanum aldna fréttirnar en hann er nú á nítugasta og öðru aldursári og slæmur til heilsunnar. „Við þorum ekki að segja honum þetta, við erum ekki vissir um að hann myndi lifa það af.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×