„Þetta er í rauninni stærra en að spila á Wembley, þannig séð," segir tónlistarmaðurinn Birgir Hilmarsson. Lag hans hljómaði í nýrri auglýsingu farsímafyrirtækisins Motorola sem var sýnd í hálfleik Super Bowl fótboltaleiksins í Bandaríkjunum um síðustu helgi. Talið er að um 105 milljónir áhorfenda hafi séð auglýsinguna.
Birgir, sem er einnig liðsmaður hljómsveitarinnar Ampop, fékk verkefnið í gegnum umboðsmann sinn sem starfar hjá tónlistarfyrirtæki í New York. „Ég held að fjöldinn allur af tónskáldum hafi verið að keppast um þetta. Ég datt í lukkupottinn í þetta skiptið," segir Birgir, sem hefur verið búsettur í London undanfarin ár. „Þetta var rosa rússíbanareið. Ég gerði upphaflega tvö verk fyrir þessa auglýsingu en ákvað þá að velja aðra pælingu sem er mínimalískt píanóverk. Ég lagði rosapúður í það en þá fékk ég allt í einu símtal um að Motorola vildi það ekki," segir Birgir. Þá ákvað hann að nota útgáfu sem hann átti af lagi sem kom út á plötunni Cinematic Songs sem kom út á netinu í fyrra og það hitti í mark hjá Motorola.
Birgir hefur fengið mikla athygli á Youtube fyrir lagið sitt og komst það í 10. sæti í Bretlandi yfir þau vinsælustu á síðunni í gær. Hann á þó enn eftir að fá borgað frá Motorola. „Það eru enn samningaviðræður í gangi. Ég er með mína umboðsmenn í því."
Hægt er að horfa á auglýsinguna hér fyrir ofan. Einnig á heimsíðu Birgirs, biggihilmars.com. - fb
