Kínverskum tölvuþrjót tókst að brjótast inn í tölvukerfi 48 vopna- og efnaframleiðenda á Vesturlöndunum.
Ómögulegt er að segja til um magn þeirra trúnaðarupplýsinga sem þessi tölvuþrjótur náði að stela áður en hann var stoppaður. Tölvuöryggisfyrirtækið Symantec hefur gert skýrslu sína um málið opinbera.
Í skýrslu Symantec kemur fram að Kínverjinn notaði nýja útgáfu af vírusforritinu Trjóuhesturinn til þess að ná stjórn á tölvukerfum fyrirtækjanna. Útgáfa þessi gengur undir nafninu Poison Ivy. Flestar tölvurnar sem ráðist var á eru staðsettar í Bandaríkjunum, Bretlandi og Bangladesh. Fram kemur í dönskum fjölmiðlum að tvö dönsk fyrirtæki eru í hópi fórnarlambanna.
Að lokum tókst Symantech að rekja slóð árásanna að tölvu í Bandaríkjunum. Sú tölva var skráð eign rúmlega tvítugs Kínverja sem búsettur er í Hebei héraðinu í nyrsta hluta Kína.
Tölvuþrjótur braust inn í tölvukerfi vopna- og efnaframleiðenda
