Innlent

Svindlar með því að senda út frá Íslandi

Ingimar Karl Helgason skrifar
Alræmdur sjónvarpsprédikari kemst undan breska fjölmiðlaeftirlitinu með því að senda þátt sinn út frá Íslandi. Reiðir Bretar hafa kvartað til útvarpsréttarnefndar vegna prédikarans, sem meðal annars sendir fólki vígt vatn án endurgjalds.

Peter Popoff er sjónvarpsprédikari sem hefur undanfarin ár verið með þætti í bresku sjónvarpi. Hann segist hjálpa fólki með ýmislegt, meðal annars að hætta að reykja með aðstoð æðri máttarvalda og þurrka út skuldir sínar. Þá hefur hann í þáttum sínum boðið vígt vatn endurgjaldslaust og raunar fleira. Hann hefur ítrekað verið áminntur af breskum fjölmiðlayfirvöldum; enda sé þetta í reynd peningaplokk. Í sumum tilvikum hafa brot hans verið talin mjög alvarleg.

Hann er samt enn að. Þáttur hans er aðgengilegur breskum sjónvarpsáhorfendum en utan seilingar þarlendra yfirvalda. Þáttur hans er nefnilega sendur út héðan, um gervihnött, á vegum sjónvarpsstöðvarinnar Omega. Bretar sem telja Peter Popoff vera svindlara hafa kvartað til útvarpsréttarnefndar, hér uppi á Íslandi.

Benedikt Bogason, formaður nefndarinnar, staðfestir að kvartanir hafi borist frá Bretlandi í nokkrum mæli; nefndin hafi málið til skoðunar; en það sé á frumstigi. Það hafi lítillega verið rætt við forsvarsmenn Omega, og væntanlega verði farið nánar yfir málið.

Eftir því sem fréttastofan kemst næst er málið samt á gráu svæði þegar kemur að því að túlka útvarpslögin; þar segir fátt um sjónvarpsprédikara og spurning er um hvort heimfæra megi kvartanir breskra upp á ákvæði íslensku útvarpslaganna um auglýsingar eða lögbundna vernd barna gagnvart ótilhlýðilegu efni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×