Innlent

Sleit sæstreng Gagnaveitunnar - Míla þarf samt að borga

Sæstrengur.
Sæstrengur.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Mílu til þess að greiða fyrirtækinu Djúptækni ehf. rétt tæplega tuttugu milljónir fyrir viðgerð á sæstreng Gagnaveitu Orkuveitu Reykjavíkur.

Djúptækni tók að sér sem verktaki að leggja sæstreng sem liggur vestan Elliðaeyjar og í land á Heimaey.

Þegar vinna við verkið hófst var vitað af ljósleiðarastreng í eigu Gagnaveitu Reykjavíkur á svæðinu án þess þó að nákvæm lega hans lægi fyrir.

Þrátt fyrir sónarmælingar þá tókst gröfumanni að slíta strenginn, en gröfuvinna hófst talsvert frá þeim stað sem talið var að strengurinn lægi. Óhappið varð fyrir rétt tæpu ári síðan.

Í kjölfarið óskaði Míla eftir því að fyrirtækið myndi laga strenginn sem og var gert, með talsverðum kostnaði, en alls kostaði 15 milljónir að laga strenginn.

Aftur á móti kom babb í bátinn þegar tryggingafélag Gagnaveitunnar neitaði bótaábyrgð. Því krafðist Djúptækni þess að Míla myndi greiða fyrir viðgerðina, þrátt fyrir að strengurinn hafi ekki verið á þeirra ábyrgð.

Míla hélt því fram að þeir ættu ekki hlut að máli þar sem strengurinn væri ekki þeirra. Þessu hafnar dómurinn, auk þess sem samskipti Djúptækni og Mílu benda til þess, að mati dómsins, að Míla hafi sannarlega óskað eftir því að fyrirtækið lagaði strenginn.

Því féllst dómurinn á það með Djúptækni að greiðslukrafa hefði stofnast á hendur Mílu. Þurfa þeir því að standa straum af kostnaðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×