Innlent

Neitar að hafa kyrkt nýfæddan son sinn

Konan á leið í dómsal ásamt verjanda sínum.
Konan á leið í dómsal ásamt verjanda sínum. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég er ekki sammála þessu. Ég drap ekki barnið," sagði Agné Krataviciuté, litháísk kona, við þingfestingu ákæru á hendur henni í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Ríkissaksóknari hefur ákært hana fyrir manndráp, með því að hafa veitt nýfæddum syni sínum tvo skurðáverka á andlit með bitvopni og banað honum síðan með því að þrengja að hálsi hans uns hann lést af völdum kyrkingar.

Þetta hörmulega atvik átti sér stað laugardaginn 2. júlí 2011, á baðherbergi í herbergi númer 319 á vinnustað konunnar, Hótel Fróni, Laugavegi 22a, Reykjavík, segir í ákæru. Þar hafi hún fætt fullburða og lifandi sveinbarn sem síðan fannst dáið í ruslageymslu í nágrenni hótelsins.

Gerð er einkaréttarkrafa á hendur konunni að upphæð þrjár milljónir króna.

Við þingfestingu málsins í gær aðstoðaði túlkur, sem þýddi ákæruna fyrir konuna og túlkaði það sem fram fór í dómsal. Hún viknaði þegar hún neitaði sök, en spurði fljótlega hverjir það væru sem sætu í dómsal og átti þar við blaðamenn. Arngrímur Ísberg dómari kvað hana ekkert mega skipta sér af því í opnu þinghaldi.

Konan hefur verið látin sæta geðrannsókn og var metin sakhæf. Verjandi hennar lagði fram kröfu um yfirmat á sakhæfi hennar og yrði til þess dómkvaddur matsmaður. Verjandinn lagði einnig fram kröfu um að þinghaldi yrði lokað við þingfestingu. Dómari tjáði honum að meginreglan væri sú að þinghald væri opið og hefði hann ekki tekið afstöðu til þess hvað aðalmeðferð þessa máls varðaði. -jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×